141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að segja eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan, auðvitað fagnar maður öllum þeim tillögum sem lagðar eru fram til úrlausnar á þessu stóra vandamáli sem við stöndum frammi fyrir.

Ég ætla ekki að ræða efnislega um einstaka þætti þessarar tillögu. Mér hefur fundist að við dettum oft í þann pytt að tína það út sem okkur líkar ekki en gá lítið að því sem gæti verið mjög athyglisvert. Í þessari tillögu er margt mjög athyglisvert og ég tel mjög mikilvægt að hún verði skoðuð mjög vandlega af hálfu þingsins. Ég vil hins vegar taka undir þau lokaorð hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem sneru að skattlagningu lífeyrissjóðanna, að það kemur eingöngu niður á almennum lífeyrissjóðum, það er ríkisábyrgð eða greiðsluskylda inn í opinberu sjóðina. Það er líka ágætt að rifja það upp að uppsafnaður halli á þessum sjóði er nú þegar upp á 400 milljarða, við sjáum hvert vandamálið er.

Á undanförnum árum hefur mér líka fundist að þau skilyrði sem hv. þingmönnum eru sköpuð, til að mynda til að fara í umræðu um skuldavanda heimilanna, séu þannig að í upplýsingar og gögn, sem nauðsynleg eru til að hægt sé að ræða hlutina af fullri alvöru og af einhverju viti, vanti oft og tíðum staðreyndir og nákvæmni. Ég nefni sem dæmi að árið 2009 sendi ég fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem þá var Gylfi Magnússon, um það hvað hefði verið afskrifað með færslu lánasafna úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana. Svarið sem ég fékk var reyndar bara „blankó“, reynt var að snúa út úr fyrirspurninni með góðlátlegu gríni, sem ég hafði ekki smekk fyrir vegna þess að mér fannst þetta það stórt og mikilvægt mál, og vísað í bankaleynd og þar fram eftir götunum.

Eftir að nýr efnahags- og viðskiptaráðherra, hv. þm. Árni Páll Árnason, tók við lagði ég nákvæmlega sömu fyrirspurnina fram, breytti bara dagsetningunni og fékk nýtt númer á þingskjal. Öllu var svarað skilmerkilega, öllu sem beðið var um, nákvæmlega hvað var fært á milli lánasafna nýju og gömlu bankana, hver afslátturinn var. Þetta er sá veruleiki sem við búum við í umræðum um þessi mál og það er ágætt að rifja það upp hvernig hlutirnir eru oft og tíðum.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir sagði áðan, og það þykir mér vera mjög mikilvæg nálgun á málið: Þetta er hugsanlega ekki eina rétta tillagan en þetta er innlegg okkar í þessa mikilvægu umræðu um það hvernig við gætum hugsanlega náð tökum á vandamálinu og gert eitthvað fyrir heimilin. Það tel ég vera markmið okkar allra, sama hvar í flokki við stöndum, og ég tel þessa nálgun hv. þingmanns gagnvart öllum þeim hugmyndum sem fram koma mjög mikilvæga. Ég hef til að mynda leitast við að sjá hið jákvæða í þessari tillögu.

Er ekki orðið tímabært fyrir hv. þingmenn að velta því fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fela sérstakri nefnd eða starfshópi innan þingsins að fara yfir þessar tillögur sem í þessu tilfelli er búið að leggja töluvert mikla vinnu í? Kannski vantar nægilega góðan aðgang að upplýsingum og greiningu vegna þess hvernig starfsumhverfi hv. þingmanna er en brýnt væri að fela þeim starfshópi að fara yfir og brjóta tillögurnar til mergjar. Menn mundu þá væntanlega taka það besta frá öllum, fyndu kannski leið sem væri sambland af þessari tillögu og annarri tillögu og svo koll af kolli. Aðalatriðið er það að við gefum þeirri tillögu sem hér er lögð fram, svo að dæmi sé tekið, það vægi og þá virðingu sem hún á skilið í umfjöllun í þinginu. Ég óttast hins vegar að afdrif hennar verði eins og margra annarra tillagna, að hún verði bara svæfð í viðkomandi nefnd.

Umræðan hefur aldrei verið kláruð og tillögur teknar til efnislegrar umfjöllunar. Menn festast bara í einu atriði og segja: Þetta er algerlega vonlaust, við hendum því til hliðar. Þar með er allt málið dautt. Þegar upp er staðið er skuldavandi heimilanna það stórt vandamál að það á að standa ofar átökum sem snúa að ákveðnum stjórnmálaflokkum eða stjórnmálaöflum. Ég held að það sé markmið okkar allra að leggja okkur fram við að leysa vandamálið. Þess vegna er aðalatriðið — ég tek undir það sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir sagði hér áðan — að við lítum ekki svo á að okkar tillaga sé sú eina rétta. Við eigum þvert á móti að leitast við að leysa vandamálið og taka tillit til og hlusta á röksemdir annarra.