141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

formleg innleiðing fjármálareglu.

57. mál
[18:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt mat að svona reglur mundu veita ákveðið aðhald og það væri óþægilegt fyrir stjórnmálamenn að brjóta reglur sem settar hefðu verið sérstaklega um þessa þætti. Eflaust væri töluvert meira aðhald í þessu fólgið ef þetta væri í stjórnarskrá frekar en í almennum lögum.

Reyndar hefur verið til umræðu að undanförnu, hugsanlega meðal einhverra stjórnarliða, að samþykki almenningur í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá skuli verða grunnur að nýrri stjórnarskrá feli það í sér að stjórnarskráin verði að vera akkúrat þannig, það megi engu breyta í tillögum stjórnlagaráðs. Það þurfi með öðrum orðum að innleiða tillögu stjórnlagaráðs, frumvarpið sem stjórnlagaráð skrifaði, nákvæmlega sem nýja stjórnarskrá. Ég minnist þess ekki að þá reglu sé að finna í tillögum stjórnlagaráðs.

Maður hlýtur því að velta fyrir sér hvort sú þingsályktunartillaga sem hv. þingmaður leggur fram hér muni hafa einhver áhrif á fyrirhugaða atkvæðagreiðslu, hún komi jafnvel til umræðu og sé eitthvað sem menn eigi að taka afstöðu til þegar þeir kjósa um tillögu stjórnlagaráðs.