141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

þjónustusamningur við löggilt ættleiðingarfélag.

68. mál
[16:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að taka þetta mál upp hér á Alþingi og ráðherra fyrir þau svör sem veitt hafa verið. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra fjallar um þjónustusamning sem er í burðarliðnum og að ræða þurfi hann við Íslenska ættleiðingu. Ég trúi því ekki að það þurfi að taka langan tíma að útbúa þann þjónustusamning. Ég tók líka eftir því að hæstv. ráðherra nefndi peningamálin í þeim efnum.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að framlög til Íslenskrar ættleiðingar hafa verið skorin niður, því miður. Það er okkur til vansa vegna þess að þetta á ekki að vera sjálfboðavinna ákveðinna aðila sem taka þessa vinnu að sér. Þetta kostar peninga og félagið þarf að fá þá.

Ég spyr hæstv. ráðherra einfaldlega: Hvað lagði innanríkisráðuneytið til um fjárframlag til félagsins Íslenskrar ættleiðingar við gerð þess fjárlagafrumvarps sem lagt hefur verið fram og við fjöllum hér um á hæstv. Alþingi?