141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

ársreikningar.

94. mál
[17:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Skylt er skeggið hökunni. Hér er um að ræða ákvæði sem leiða af áður samþykktum lögum eða öðrum þeim frumvörpum sem mælt hefur verið fyrir að verulegu leyti. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að þau atriði muni vera í litlum ágreiningi í nefndarstarfinu, fyrst og fremst muni starf nefndarinnar lúta að því að fara yfir það með hvaða hætti þau eru tæknilega útfærð og að þau séu sem allra skýrust. Það er hluti af tilganginum með málinu að skýra og skerpa á skyldum aðila og sömuleiðis að færa fjárhæðir til eðlilegs horfs og önnur slík skýringaratriði.

Hins vegar er mikilvægt efnisatriði í málinu sem lýtur að upplýsingaskyldunni og hæstv. ráðherra vísaði til. Það er málefni sem ólík sjónarmið geta verið um. Ég vona þó að hér megi takast nokkuð breið pólitísk samstaða um að gera það ákvæði að lögum því það felur í sér aukið gagnsæi um eignarhald í íslensku atvinnulífi. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt viðfangsefni fyrir okkur.

Við þekkjum það hvaða skelfilegu afleiðingar það getur haft þegar slík tengsl eru óljós og eru misnotuð. Það er mikilvægt fyrir lítið hagkerfi og lítið samfélag eins og okkar að þar sé sem allra mest upplýst um slíka hluti, að hlutir séu sem gagnsæjastir og uppi á borðum og öllum ljósir þannig að hagsmunir almennings og aðgengi þeirra að upplýsingum um það hvernig hlutum er fyrir komið sé skipað með sem bestum hætti.

Þó að áherslur kunni að vera ólíkar um það hversu langt eigi að ganga í gagnsæi hygg ég að þær tillögur sem hér eru uppi eigi að vera með þeim hætti að um þær ætti að geta tekist breið og góð pólitísk sátt. Ég vonast til þess að nefndarstarfið leiði það í ljós.