141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[18:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þátttöku þingmanna í umræðum þá vorum við að ræða áðan fjáraukalagafrumvarpið, eins og herra forseti veit. Það var sáralítil umræða um það. Þar var verið að ræða um að auka skuldir ríkisins um 100 milljarða og þótti nú ekki umræðu vert.

Hér er nefndarálit sem tekur á þessum vanda. Auðvitað hefðu menn getað tekið inn síðustu þrjá mánuðina og reynslu af þeim þegar kerfið fer í gang. Það getur vel verið að hv. nefnd geti rætt það í 3. umr. að tekið sé inn í myndina það sem fólk hefur borið af lyfjakostnaði, t.d. í október, nóvember og desember, og greiðslurnar sem koma í janúar og febrúar mildaðar út frá því. Sumt fólk er með stöðugan og mikinn lyfjakostnað en aðrir sleppa alveg. Fyrir utan það sem ég hef líka nefnt í þessu sambandi, að fyrst að hér er ekki verið að taka á öllum kostnaði við heilbrigðisþjónustu geta sumir verið í dag með lítinn og engan lyfjakostnað en hins vegar mjög háan kostnað vegna sérfræðinga og út af alls kyns myndatökum og slíku. Enn aðrir eru bara með lyfjakostnað og þeir eru betur settir með þetta frumvarp.

Ég er ansi hræddur um að meðan menn taka ekki allt heilbrigðiskerfið undir í kostnaði verði kostnaðinum alltaf misskipt og illa misskipt. Ég fellst á þetta frumvarp en mér finnst að í upphafi ætti að taka mið af kostnaði fólks áður en kerfið byrjar þannig að ríkissjóður sé ekki alveg stikkfrír í janúar og febrúar.