141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað má setja virkjanir í bið, líka úr verndarflokki. Með sömu rökum mætti taka ákveðnar virkjanir sem hin faglega nefnd setti í vernd og setja í bið. Það mætti bíða pínulítið og sjá hvort virkilega sé ástæða til að vernda svæðið.

Verndarsinnar gefa á sér höggstað með því að breyta þessu. Ég tel að þetta skaði samkomulagið og sáttina sem náðst hafði og leiði til þess að hugsanlega geti menn varpað upp spurningum um allt heila verkið sem unnið hefur verið.

Ég féllst á þessa sátt þó að ég væri ekki sáttur við hana. Hv. þingmaður sagði að þetta væri ekki hennar óskalisti og þetta er ekki heldur minn óskalisti. En ég féllst á hann. Svo er því breytt og ég sé að það sem ég hafði sætt mig við með því að gnísta tönnum er bara eyðilagt. Eftir að búið var að semja var samið upp á nýtt og öllu breytt. Þetta er það sem er hættulegt þegar menn ætla að byggja upp traust og virða skoðanir hver annars.

Talandi um óskynsamlegar ákvarðanir, það er eins og sumir hv. þingmenn viti það fyrir aðra hvort ákvarðanir eru óskynsamlegar. Ég tel að færð hafi verið heilmikil rök fyrir öllum þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið þannig að ég fellst ekki á þetta.

Hv. þingmaður nefndi ferðaþjónustuna sem eitthvað mjög jákvætt. Ferðaþjónusta er neikvæð. Hún borgar lág laun og mengar ekki síður og skemmir landið. Ferðamenn vaða yfir landið á troðningum og vegaslóðum og yfir fallegar minjar sem við eigum, Þórsmörk o.fl. Þetta liggur allt undir skemmdum.