141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

mál skilanefnda og slitastjórna.

[10:55]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta ofur eðlilegar spurningar hjá hv. þingmanni og eðlilegt að hv. þingmaður taki þetta mál upp. Mér ofbjóða þessi kjör slitastjórna líkt og öðrum og þær eru vissulega hneykslunarefni, eins og hv. þingmaður orðaði það. Við höfum rætt þetta oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í ríkisstjórninni, en staðan er bara þannig að kröfuhafarnir greiða þessum slitastjórnum og stjórnvöld hafa ekki vald til að grípa inn í þessi mál. Slitastjórnir eru skipaðar af héraðsdómara og hann einn hefur til dæmis heimild til að víkja þeim frá störfum. Samningar um greiðslur til slitastjórnarmanna eru á milli þeirra og kröfuhafanna.

Síðast ræddum við þetta í ríkisstjórninni þegar þetta kom upp fyrir stuttu. Þá fjölluðum við um málið og ákváðum að fjármálaráðherra færi þess á leit við Seðlabankann að hann nýtti rétt sinn sem kröfuhafi til að gera athugasemdir við þessi yfirgengilegu ofurlaun slitastjórna. Mér finnst eðlilegt að Seðlabankinn sem er þarna með kröfur geri það.

Ég hef ekki leitað svara hjá fjármálaráðherra um hver viðbrögð Seðlabankans við þessari fyrirspurn hafi verið en það er auðvitað alveg yfirgengilegt hvernig þessi laun eru. Því miður er þetta í höndum kröfuhafanna og þykja víst ekki há laun á mælikvarða erlendis þó að okkur þyki þetta algjörlega yfirgengilegt. Það er líka rétt að taka alveg skýrt fram að það eru ekki skattgreiðendur sem greiða þessi laun en því miður hafa stjórnvöld ekki vald á þessu máli eins og ég lýsti. Það eru kröfuhafarnir fyrst og fremst.