141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í þessu máli liggur það fyrir eins og hv. síðasti ræðumaður kvað á um að það er þingið sem sker endanlega úr um þetta. Það er um það að ræða að sérstaklega var tekið fram og gerð breyting á þingskapafrumvarpinu vorið 2011 til þess að tryggja að auðlindamál væru þar undir. Það var breyting sem var gerð af ráðnum hug.

Nú er það svo að þrír skýringarkostir eru í boði sem varða þingsköp. Er þá ekki rétt að forseti skeri úr um hver kosturinn er réttur? Einn kosturinn er sá að þingsköpin kveði á um að þetta fari til atvinnuveganefndar. Annar kostur er sá að þingsköpin kveði á um að þetta fari til umhverfisnefndar, öll þessi sjónarmið hafa heyrst hérna, eða þá að þingið geti valið um það. Ég skora á forseta að skera úr um þetta.

En síðan skulum (Forseti hringir.) við velta fyrir okkur hvort hið pólitíska vandamál sem leiðir til þess að verið er að færa málið núna frá atvinnuveganefnd til umhverfisnefndar snúist ekki einmitt um afstöðu fulltrúa (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd.