141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem er merkilegt við það mál sem hér er til umfjöllunar, rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða, er sú sögulega tilraun sem þar er gerð til að skapa jafnvægi í þeim málaflokki á milli þessara sjónarmiða. Þess vegna hefur mér alltaf fundist það einboðið að umfjöllun þingsins um málið fari fram í samstarfi þessara tveggja nefnda, í samstarfi atvinnuveganefndar annars vegar og umhverfis- og auðlindanefndar hins vegar. Ég tel að það sé langfarsælasta og eðlilegasta niðurstaðan að málið sé unnið með þeim hætti.

Hins vegar hefur hæstv. fjármálaráðherra og aðrir sem hér hafa talað fært fyrir því góð rök að í ljósi þess að stofnað hefur verið nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti á þessu hausti sé eðlilegt að formlegt forræði málsins sé í höndum umhverfis- og samgöngunefndar. Ég mun því styðja þá tillögu en hvet þingheim til að virða uppruna þessa máls og þá einskæru tilraun til að skapa sátt í samfélaginu á milli þessara mikilvægu sjónarmiða. (Forseti hringir.) Í kjarnanum fjallar þetta mál um eitt: Auðlindir, bæði auðlindir í orkugeiranum en sannarlega líka þá auðlind (Forseti hringir.) sem býr í náttúrunni sjálfri.