141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[15:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra segir, að menn verði ekki með neinn gassagang í þessum efnum, en hins vegar vakna ýmsar spurningar sem ágætt væri að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra gagnvart. Við þekkjum dæmi um sameiningu stofnana í gegnum tíðina vegna húsnæðismála og annars slíks, alla vega þekki ég nokkur dæmi frá þeim stutta tíma sem ég hef verið á þingi. Hæstv. ráðherra segir að nú fari menn rólega af stað. Hefur hæstv. ráðherra einhverjar hugmyndir um að fara í mikil húsnæðiskaup eða leigu eða eitthvað slíkt? Hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér?

Hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni áðan að búið væri að skera mjög mikið niður hjá stofnunum sem hafa verið sameinaðar þannig að menn gætu kannski reiknað með minni ávinningi af hagræðingunni en þeir gerðu í upphafi. Það skil ég. Við vitum að fyrstu árin eftir að stofnanir eru sameinaðar kemur fram einskiptiskostnaður. Hefur hæstv. ráðherra áhyggjur af því að slíkt muni koma meira niður á starfi stofnananna en sá niðurskurður sem þær hafa þegar þurft að ganga í gegnum? Getur hæstv. ráðherra upplýst hvort þessar stofnanir eigi einhvern höfuðstól inni á ríkisreikningi? Hefur það verið skoðað sérstaklega? Ég ætla ekki að krefja hann svara um það með nokkurra sekúndna fyrirvara, en mun ráðuneytið skoða þessa hluti áður en farið verður í sameininguna?