141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

172. mál
[17:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa brugðist við ýmsu af því sem ég hafði á orði í ræðu minni áðan. Það var eitt atriði sem ég vék að sem ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hafði aðstöðu til að fylgjast með og það voru þessi mál sem snúa beinlínis að póstþjónustunni. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki sett mig nákvæmlega inn í þau mál á síðustu missirum en ég sé hins vegar í greinargerðinni sem fylgir þessari tillögu að þar er vikið að því að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, sem gildir fyrir EES-svæðið, átti að afnema einkaréttinn 31. desember 2010. 11 aðildarríki fengu leyfi til að fresta þessu varðandi einkaréttinn til 31. desember 2012. Við Íslendingar vorum meðal þeirra sem fengu þann frest og eins og ég skil þetta er sá frestur að líða.

Nú spyr ég: Með hvaða hætti hafa íslensk stjórnvöld undirbúið þetta? Með hvaða hætti má búast við að þessi breyting gerist? Gerist hún bara yfir nótt, að um áramótin, þegar við komum til baka úr gamlárskvölds- og nýársgleðinni, blasi við okkur nýr veruleiki þarna án þess að við gerum okkur grein fyrir því hvað um er að ræða? Ég er ekkert endilega að segja að þetta sé alveg kolómögulegt. Ég velti því bara fyrir mér hvernig við tryggjum þá það sem við vorum að reyna að tryggja í upphafi þegar við í fyrsta lagi settum alþjónustukvöðina á Íslandspóst og vorum í öðru lagi að reyna að tryggja okkur með því að fá þennan frest framlengdan áður en við þyrftum að gangast undir ok Evrópusambandsins og afnema þennan einkarétt á póstdreifingunni. Þá er ég að tala um einkaréttinn á bréfum sem vega innan við 50 grömm.

Þetta mál var til dæmis mjög mikið rætt þegar við vorum að breyta póstlögunum fyrir 15 árum eða svo. Þá höfðu margir mjög miklar áhyggjur af þessu, viðmiðunin 50 grömm var meðal annars stórmál hér í þinginu, hvort miða ætti við 50 eða 75 grömm. (Forseti hringir.) Ég vil því gjarnan inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þessi mál standa, hver afstaða íslenskra stjórnvalda (Forseti hringir.) er í þessu og hvernig að þessu verði staðið.