141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

172. mál
[17:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist þetta svar hæstv. innanríkisráðherra vera mjög skýrt og afdráttarlaust. Það er þannig að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins á að fullu að afnema þennan einkarétt og hvað okkur áhrærir snertir þetta fyrst og fremst einkaréttinn á dreifingu á bréfum undir 50 grömmum. Í því er alþjónustukvöðin líka falin.

Hæstv. innanríkisráðherra er þá að segja að við munum ekki afnema einkaréttinn sem Íslandspóstur hefur í dag á dreifingu á bréfum undir 50 grömmum og þar með munum við viðhalda alþjónustukvöðinni að þessu leyti á því fyrirtæki. Ég vil að hæstv. ráðherra stafi þetta vel ofan í mig þannig að það liggi þá fyrir að burt séð frá þessari tilskipun Evrópusambandsins — hún er mjög skýr að þessu leyti, við eigum að gera það vegna aðildar okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði — munum við ekki gera það, við ætlum ekki að hverfa frá þessum einkarétti sem er til staðar. Hann er í dag forsendan fyrir því að tryggja póstburð úti um allt land á grundvelli alþjónustusamningsins sem ríkið gerir við þetta fyrirtæki.

Ég er ekkert á móti þessari afstöðu hæstv. ráðherra en áður en menn ganga í að afnema þennan einkarétt verður að sjá fyrir hlutunum með einhverjum hætti. Það þarf að vera gulltryggt hvernig þessari póstdreifingu verður sinnt. Hún er lífsnauðsynleg fyrir byggðir landsins, það blasir við. Ég tel því mjög mikilvægt að hæstv. innanríkisráðherra komi hér aftur og stafi þetta betur ofan í okkur þannig að það liggi þá alveg fyrir að það sé ákvörðun hans, og þar með íslenskra stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, að þessi einkaréttur verði ekki (Forseti hringir.) afnuminn um næstu áramót.