141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gjaldeyrisstaða Landsbankans.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég tel að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða enda tekur Seðlabankinn ekki upp hvaða mál sem er og vekur athygli á að það ógni fjármálastöðugleika í landinu. Spurningin sem hlýtur að blasa við okkur er þessi: Hvernig gat það gerst einungis örfáum árum eftir að bankanum var komið á fót að hann var kominn í þá þröngu stöðu að hafa ekki eignir í erlendum gjaldmiðlum til að standa í skilum með skuldir í erlendum gjaldmiðlum? Hvernig gat það gerst?

Mér fannst ráðherrann skauta tiltölulega léttilega fram hjá þeirri spurningu með því að segja: Þetta voru ekki mistök, þetta var allt eðlilegt. Væntanlega hafa menn gengið út frá því á þessum tíma, árið 2015, að menn hefðu aðgang að erlendum lánamörkuðum. En staðan er sú að það stefnir í að það verði ekki þannig. Þess vegna er ástæða til að spyrja þessara spurninga og ég tel að íslensku krónunni og áætlun stjórnvalda um afnám haftanna standi veruleg ógn af þeirri stöðu sem upp er komin. Þetta eru ekki litlar fjárhæðir, 70 milljarðar á ári á árunum 2015–2018, sem Landsbankinn þarf á að halda og við erum enn með höft og ríkisstjórnin er að vinna að því að herða þau.