141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands.

144. mál
[17:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að settum forstöðumanni var líka falið að vinna að ákveðnum verkefnum á meðan hlutir á borð við húsnæðismál safnsins væru til skoðunar þannig að það hefur ekki verið kyrrstaða á málefnum safnsins í hennar tíð, svo sannarlega ekki. Mjög ötullega hefur verið unnið að því að ljúka stefnumótun og reyna að ná samningum við Náttúrufræðistofnun sem byggja á gildandi löggjöf. Ef það næst ekki verða lögin hins vegar skoðuð eins og hv. þingmenn bentu á á þeim samráðsfundi sem við áttum í vor. Nú hefur orðið breyting á þingmannahópnum og því hefur ekki náðst að boða til fundar enn þá, en mér finnst mjög mikilvægt að það verði gert. Ég lít svo á að hér sé unnið samkvæmt þeirri stefnu sem við erum sammála um, að þetta skipti miklu máli.

Hv. þm. Birgir Ármannsson sakaði hæstv. ráðherra um að vera full tæknileg og ég biðst afsökunar á því, það var frá mjög mörgu að segja á skömmum tíma. Ég tel mjög mikilvægt að við byggjum upp náttúruminjasafn. Forlögin hafa hins vegar leikið það grátt að vissu leyti því að þegar hér voru samþykkt lög um Náttúruminjasafn Íslands á sínum tíma, árið 2007, átti að gefa tíma til að ljúka stefnumótun og fara síðan að huga að byggingu í kringum 2008, 2009, 2010. Eins og hv. þingmanni er kunnugt fór hér náttúrlega allt á hausinn og ekki hafa verið miklir fjármunir aflögu.

Mér finnst mikilvægt að við finnum lausn þar sem hægt er að segja að Náttúruminjasafnið standi undir því að reka sýningu sem er aðgengileg almenningi og ferðamönnum. En ég tek undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að sú lausn getur ekki orðið varanleg. Við eigum að huga að henni núna og stefna síðan að því að reisa veglega byggingu undir náttúruminjasafn.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur ekki heyrt það, en ég nefndi áðan að gripirnir yrðu fluttir til Náttúrustofu Kópavogs í viðunandi geymslurými og það væri unnið að flutningi þeirra til þess að búa sem best að þeim.

Ein af ástæðum þess að mér finnst mikilvægt að finna veglegra rými en Loftskeytastöðina er sú að sýning þar (Forseti hringir.) hefði kostað umtalsverða fjármuni í mjög litlu rými sem ekki er mjög aðgengilegt. Ég held að betra sé að hugsa aðeins stærra því hlutfallslegur kostnaður við slíkt yrði talsvert meiri en plássið gefur til kynna. Ég held að mikilvægt sé að huga að því.

Ég ítreka vilja minn til þess að halda góðu (Forseti hringir.) samráði við hv. þingmenn um þetta mál, því að ég veit að þetta er metnaðarmál margra hér.