141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er einhver hugsanavilla hjá hv. stjórnarliðum. Ef menn ætluðu ekki að fara að nýta þá hefði málið ekki verið lagt fram. Þetta gengur út á að nýta, það segir sig sjálft.

Rammaáætlun er til þess að ákveða hvaða auðlindir við ætlum að nýta. Og það stendur alveg skýrt í þingsköpum Alþingis að þetta eigi að vera í atvinnuveganefnd. Málið er ekki flóknara en það. Það segir sig sjálft að við þyrftum ekki að leggja þetta mál fram ef við værum búin að ákveða að það ætti ekkert að nýta.

Síðan getur hver og einn lesið upp úr þingsköpum Alþingis hvað atvinnuveganefnd á að gera. Ef menn eru farnir að túlka það þannig að senda eigi mál þangað sem mönnum dettur í hug þá skulu menn ekki vera með neina upptalningu úr þingsköpum Alþingis. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: … bara svona …) Hv. þingmaður segir það bara. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Það er spurning hvort við endurskrifum þetta ekki, ég held við ættum ekkert að halda nöfnum á nefndum. Það er engin ástæða til þess. (Gripið fram í: Jæja, eigum við ekki bara …?)