141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og lýðveldisins Kólumbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og lýðveldisins Kólumbíu. Hvort tveggja eru mjög ánægjulegir hlutir og ég gleðst yfir því að við skulum vera að opna fyrir viðskipti við umheiminn.

Mig furðar að hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmaður hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu skilyrðislaust. Umsóknin var bara: Við sækjum hér með um aðild að Evrópusambandinu.

En þegar við erum gengin í Evrópusambandið að vilja hv. þingmanns, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórnar, þá gerum við ekki lengur svona samninga og þeir falla niður. Er það ekki rétt skilið hjá mér, herra forseti, ef ég má beina þeirri spurningu til hv. þingmanns sem talaði hér síðast?

Er það ekki dálítið undarleg staða að menn skuli leggja í þessa vinnu og slíka vegferð og vera í annarri vegferð sem fer í allt aðra átt á sama tíma? Þetta minnir á vissa sjúkdóma sem hrjá sumt fólk, að halda eitt í dag og annað á morgun. (Gripið fram í: Getur þingmaðurinn verið skýrari í tali?)