141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með hið skerta skipulagsvald. Á sama tíma talar það fólk sem er í liði með hv. þm. Merði Árnasyni um að sveitarfélögin megi ekki hafa svo strangt skipulagsvald þegar kemur að virkjunum í þessu landi, þannig að það er ekki alveg sama hvað er rætt um.

Það er ekkert leyndarmál og það liggur í augum uppi við lestur þessa frumvarps að við erum að tala um að völlurinn í Vatnsmýrinni verði til margra næstu ára, annað er algjörlega galið að hugsa sér, þetta er ekkert flóknara en það — nema þá að við ætlum að flytja þessa starfsemi til Keflavíkur.

Ég fór yfir það hér áðan í löngu máli, og færði rök fyrir því, hvaða kostnað það hefði í för með sér, hvaða áhrif það hefði á innanlandsflugið, hversu ferðum mundi fækka, hversu þjónustustigið mundi lækka, hversu margir mundu missa vinnuna, hversu erfiðara yrði að halda uppi lífsgæðum í þessu landi fyrir hinar dreifðu byggðir. Þetta er vel rökstutt og ég er ekki tilbúinn til að leggja því lið, það er bara einfaldlega þannig. Ég er tilbúinn að verja þá hagsmuni landsbyggðarinnar og okkar höfuðborgarbúa sem felast í því að hafa þessa starfsemi hér í Reykjavík.

Þegar hv. þm. Mörður Árnason býður upp á þá málamiðlun að við getum talað um einhvern þríhyrning hér frá Borgarnesi og Selfossi og Suðurnesjum er alveg ljóst að hv. þingmaður hefur varla farið mikið út á land og þekkir ekki mikið hvað hann er að tala um. Hann horfir allt of mikið, að mínu viti, á þann nafla sem er hér í 101 Reykjavík í þessu máli. Það geri ég ekki. Ég hef þá reynslu og þekkingu af búsetu í þessu landi, ég hef farið það mikið um þetta land — og ég nota almenningssamgöngur mikið og ekki síst flugið.

Af því að hv. þingmaður ýjar að því að ég sé umhverfissóði sem komi ekki nálægt slíku þá vísa ég í það sem ég hef áður sett fram í ræðu og riti: Ætli ég sé ekki eini þingmaðurinn sem keyrir um á metanbíl, sé sá eini sem er búinn að setja það í bílinn minn. Það er nú allur umhverfissóðaskapurinn (Forseti hringir.) í mér. Ég veit að hv. þm. Mörður Árnason fer mikið um á hjóli. Það geri ég líka, (Forseti hringir.) en ég hef þó gert þetta.