141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson, eindregið undir þá ósk hv. þm. Péturs Blöndals sem hér hefur komið fram um að gefinn verði rýmri tími í dagskrá þingsins einhvern tíma á næstu dögum, hugsanlega á morgun og ef það næst ekki þá snemma í næstu viku, þar sem þingmenn fá tækifæri til að ræða efnislega um þau atriði sem gert er ráð fyrir að þjóðin gangi til atkvæða um 20. október.

Ég held að það væri þarft. Alþingi er auðvitað ekki enn þá með neitt þingmál til afgreiðslu um þetta. Hins vegar vitum við sem hér störfum að Alþingi hefur, um leið og að vera löggjafarvald og hafa ýmiss konar önnur hlutverk, það hlutverk að vera einn helsti umræðuvettvangur þjóðarinnar á sviði stjórnmála.

Þarna er verið að fjalla um mál sem við flest höfum skoðanir á. Og af hverju ekki að gefa svigrúm í störfum þingsins, eins og gert er ráð fyrir í 2. mgr. 60. gr. þingskapalaga, til að taka umfangsmikið og efnismikið mál (Forseti hringir.) til ítarlegrar og góðrar umræðu hér? Er eitthvað því til fyrirstöðu?