141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

launamunur kynjanna.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í þau 50 ár sem í gildi hafa verið lög í landinu um að ekki megi mismuna körlum og konum í launum hafa allir flokkar verið í ríkisstjórn og haft tækifæri til að fara í aðgerðir og taka á þessum málum. Ég hygg að vilji allra flokka hafi staðið til þess á þessum 50 árum. Flokkarnir hafa beitt sér með mismunandi afgerandi hætti í þessu máli en það er alveg sama hvað gert hefur verið hjá flokkunum í samráði við Jafnréttisstofu og aðila vinnumarkaðarins, það hafa alltaf verið fundnar leiðir til að fara fram hjá því og greiða körlum hærri laun en konum. (Gripið fram í: Ertu …?) Ég harma það mjög.

Óútskýrður launamunur er núna 13%. Ég man að þegar ég var í félagsmálaráðuneytinu var hann 16% þannig að eitthvað hefur þokast í rétta átt í þessum málum. Þingið taldi sig fyrir nokkrum árum vera að leggja til aðgerð sem mundi skila árangri þegar hér var samþykkt af öllum flokkum að fara út í að koma á jafnlaunastaðli. Það hefur tekið nokkur ár að smíða þennan jafnlaunastaðal og á næstu mánuðum verður hann tekinn í notkun. Við höfum unnið að aðgerðaáætlun með aðilum vinnumarkaðarins og væntanlega verður hún birt fljótlega. Það sem við höfum samþykkt að gera er að ríkisstjórnin muni í þessum mánuði fara í aðgerðir þar sem hvert ráðuneyti fyrir sig fer ofan í laun karla og kvenna í sínu ráðuneyti og leiðréttir launamuninn. Í kjölfarið verður farið í allar opinberar stofnanir og gerð áætlun um að leiðrétta muninn.

Síðan hef ég áhyggjur af því að það virðist mjög erfitt að taka á þessu þótt ég hafi margreynt það. Ég er enn að gera tilraun til að taka á þessum viðbótarlaunum hjá hinu opinbera sem í miklu meiri mæli hafa runnið til karla en kvenna. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar hér og með aðilum vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) og að því erum við að vinna. Það er ekki hægt að brigsla einum eða neinum, hvorki þessari ríkisstjórn né öðrum, um að hafa ekki gert tilraunir til að leiðrétta muninn. Atvinnurekendur komast hjá þessu með einum eða öðrum hætti og fara fram hjá lögum og aðgerðum sem Alþingi og ríkisstjórnarflokkar beita sér fyrir.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann.)