141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

jafnréttismál.

[10:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla líka að leyfa mér að ræða launamun kynjanna, um enn eina könnunina sem ítrekar og undirstrikar að launamunur kynjanna, bæði hjá hinu opinbera og á einkamarkaði, er að aukast og það í tíð vinstri ríkisstjórnar undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur. (Gripið fram í.) Hver einasta skjaldborg er ekki að hruni komin, hún er ekki fallin, hún hefur aldrei verið reist, hvorki um heimilin né jafnréttismálin. Ég verð þó að segja hæstv. forsætisráðherra það til hróss að mér fannst það gott hjá henni og ég tek undir það sem hún sagði á þingi BSRB: Þetta er algjörlega óþolandi. En það er ekki nóg að segja það því að ríkisstjórnin er víst búin að gera eitthvað í jafnréttismálum. Hún hefur ítrekað verið staðin að því að brjóta jafnréttislög og farið frekar léttúðlega með niðurstöðu úrskurðarnefndar kærumála varðandi þau atriði. Það sendir ákveðin skilaboð út í samfélagið þegar ríkisstjórnin brýtur jafnréttislög ítrekað.

Það má líka segja um eitt mikilvægasta jafnréttistæki síðari ára, fæðingarorlofið, sem er fyrirmynd annarra þjóða í þeim efnum. Það var sérstaklega hugsað af hálfu Alþingis sem jafnréttistæki til að berjast gegn launamun kynjanna. Hvað gerir ríkisstjórnin? Hún forgangsraðar í þá veru að skerða fæðingarorlofið, ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar heldur þrisvar og síðan í fjórða skiptið. Þannig er forgangsröðunin hjá hæstv. ríkisstjórn í jafnréttismálum. Gott og vel, við vitum að það er jákvæður hugur gagnvart jafnréttismálum hjá ríkisstjórninni en verkin segja annað, það er bara svo einfalt. Hvað eftir annað, hvar sem mann ber niður, kemur í ljós að ríkisstjórnin stendur sig ekki í jafnréttismálum, sama hversu sárt það er fyrir hæstv. forsætisráðherra að heyra það.

Að sjálfsögðu lýsi ég mig reiðubúna, eins og allir sjálfstæðismenn og aðrir þingmenn, að vinna bug á þessu vandamáli. Ég ítreka þó það sem fram kom í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur áðan og hvet hæstv. forsætisráðherra að fara í heimsókn til bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Árna Sigfússonar. Þar hefur verið unnið markvisst undir forustu sjálfstæðismanna að því að uppræta kynbundinn launamun. (Forseti hringir.) Það er hægt ef viljinn er til staðar og menn geta sýnt hann með verkum sínum. Ríkisstjórn Íslands gerir það ekki.