141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

efnahagsáætlun AGS.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til og eins fyrrverandi ríkisstjórn strax í kjölfar kreppunnar með neyðarlögunum og samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi verið heillaskref. Ég held að það hafi hjálpað okkur mjög til þess að vinna okkur út úr kreppunni og komast inn í endurreisnina eins og við höfum verið að gera. Til eru mjög margar upplýsingar um það, sem ég tel að hafi varla farið fram hjá hv. þingmanni, sem sýna að við erum á réttri leið með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Nýlega hafa Írland og Ísland verið borin saman að því er varðar kreppuna og fleiri lönd reyndar líka. Sá samanburður sýnir að þær aðgerðir sem við höfum farið í hafa bæði skilað okkur því að ríkissjóður er á réttri leið og að við munum ná jöfnuði í ríkissjóði á næsta ári sem mun spara okkur verulega mikla vexti. Vextir eru mjög þung byrði á okkur, yfir 80 milljarðar kr. Það er leið til þess að vinna sig út úr því, sú leið sem við höfum farið að því er varðar ríkissjóð.

Ég er með nýlega skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka fyrir framan mig undir fyrirsögninni: Hagkerfið er komið út úr kreppunni, sem sýnir það einmitt svo ekki verður um villst. Þar er talað um að vöxtur sé á flestum sviðum efnahagslífsins, að markverður árangur hafi náðst í því að vinna á kerfisvandamálum og hagvöxtur er hóflegur. Ég trúi því ekki að það hafi farið fram hjá hv. þingmanni að hagvöxtur hér er meiri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við, hann er þó á milli 2% og 3% hér á meðan hann er miklu minni til dæmis í Evrópulöndunum.

Kaupmáttur hér er að aukast verulega, það sjáum við, og allar hagtölur sýna að við erum á réttri leið. Ég get því ekki verið sammála því, ef það hefur verið viðhorf AGS, sem (Forseti hringir.) hefur nú yfirleitt hrósað aðgerðum ríkisstjórnarinnar fremur en hitt, að við höfum gert eitthvað rangt í þessum efnum. (Forseti hringir.) Ég held að við höfum gert eins vel og mögulegt var við þær erfiðu aðstæður sem þessi ríkisstjórn hefur verið í að koma okkur út úr kreppunni.