141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar. Það er þrennt sem ég mundi vilja spyrja ráðherrann um varðandi efni frumvarpsins.

Ráðherra hefur þegar komið inn á þann þátt sem ég nefndi við hana varðandi breytingar á grein sem koma fram í 5. gr., e-lið, þar sem sagt er: „Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið.“

Hefur ráðherrann velt nákvæmlega fyrir sér hvernig hægt er að útfæra þetta? Ég held að við séum öll — ég hef heyrt það í umræðunni í allsherjar- og menntamálanefnd af því ég hef tekið það upp þar — sammála um að við viljum sjá þetta gerast og mér skilst að það sé sama afstaða hjá stjórnmálamönnum alls staðar í Evrópu, þ.e. að leggja áherslu á að þetta sé í opnum aðgangi. En þeir sem þekkja til hafa bent á að ef það yrði raunar kvöðin þá værum við að útiloka okkar færustu vísindamenn frá því að geta birt greinar sínar í virtustu tímaritum heims. Má nefna Nature Genetics sem dæmi um þess háttar tímarit.

Ein hugmyndin sem hefur verið nefnd er hvort möguleiki sé á því að þetta færi inn í það samkomulag sem er nú til staðar í gegnum hvar.is. Þetta væri í opnum aðgangi gagnvart þeim sem eru með IP tölur frá Íslandi og þá væri samið um það við viðkomandi tímarit.

Síðan mundi ég nefna aðeins markáætlunina. Talað er um „í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla“. Hvernig mundi þetta til dæmis koma niður á þeim sem stunda rannsóknir á sviði félagsvísinda, þar sem oft er ekki endilega verið að koma með einhverjar afurðir sem hægt er að vinna með fyrirtækjum?

Og síðan er þriðji þátturinn sem ég ætlaði að nefna við ráðherrann. Ég sé ekki hvort einhver niðurstaða er komin varðandi þá vinnu (Forseti hringir.) að tryggja betur hlut kynjanna í hlutdeild í úthlutun við að styrkja vísindarannsóknir.