141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

virðisaukaskattur.

60. mál
[15:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp til laga sem hv. þingmaður Einar K. Guðfinnsson er fyrsti flutningsmaður að er mjög merkilegt mál. Það sýnir hversu merkilegt málið er og mikilvægt að mér sýnist að á því séu fulltrúar allra flokka. Ég sé að við erum að minnsta kosti fjórir jafnaðarmenn á frumvarpinu, það sýnir að við viljum veita því brautargengi. Þetta er mjög merkilegt mál. Það snýst um, eins og hv. þingmaður hefur fjallað um, að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Svo er vitnað í frumvarpinu í álitsgerð frá Orkusetrinu á Akureyri sem birtir talsverðan fróðleik á heimasíðu sinni og er mjög athyglisvert að fara yfir það. Þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Varmadælur hafa notið síaukinna vinsælda á norðlægum slóðum þar sem þörf er á upphitun húsa stóran hluta ársins. Í Svíþjóð eru t.d. 95% allra nýbygginga útbúnar varmadælum. Ísland hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að húshitun þar sem langstærsti hluti bygginga er hitaður með ódýrum jarðvarma. Um 8% notenda kynda þó hús sín með rafhitun þar sem varmadælur kæmu í sumum tilfellum til greina sem vænlegur kostur til að draga úr orkunotkun. Varmadæla samanstendur venjulega af dælubúnaði og leiðslum sem mynda lokað gas/vökvakerfi. Í gas/vökvakerfinu er ákveðið efni eða svokallaður vinnslumiðill sem breytir um fasa á leið sinni um kerfið. Við þessar fasabreytingar myndast varmaorka sem nýta má til húshitunar. Varmadæla skilar frá sér varmaorku til upphitunar en þarf til þess raforku til að knýja dælukerfið en sú raforka er þó mun minni en þyrfti við hefðbundna rafhitun. Orkuhagkvæmni varmadælu ræðst því af hlutfalli þeirrar orku sem fæst frá henni og orkunnar sem þarf til að knýja hana.“

Hér snýst þetta sem sagt um það að 25% virðisaukaskattur verði endurgreiddur.

Þetta er mjög þjóðhagslega hagkvæm aðgerð fyrir þann 10% hluta þjóðarinnar sem er með langhæsta upphitunarkostnaðinn, eða eins og hv. þingmaður sagði áðan; þetta er hagkvæm aðgerð til að jafna mismuninn á húshitunarkostnaði á landinu. Á höfuðborgarsvæðinu kostar 93 þús. kr. að kynda 180 fermetra hús á meðan það kostar 238 þús. kr. í dreifbýli á orkuveitusvæði Rariks.

Þetta er í raun og veru eitt mesta jafnréttismálið sem við getum komið að ásamt því að auka þær niðurgreiðslur sem staðið hafa í stað frá setningu raforkulaganna 2003 og gera það að verkum að húshitunarkostnaður hjá fólki í dreifbýli er svo hár sem raun ber vitni.

Við höfum ekki mikið notað varmadælur vegna þess að stærsti hluti landsins hefur aðgang að heitu vatni sem er mjög ódýrt víðast hvar. Ég átti þess hins vegar kost í gær að koma inn í verslun á Vopnafirði sem er við það að fá græna vottun meðal annars vegna þess að öll kæliborð og blásarar sem þar eru eru tengd við varmadælur til að hita upp húsnæðið eða kæla það á sumrin, við vitum nefnilega að það er oft heitt og gott veður á Vopnafirði. Jafnframt hafa verið settar hurðir fyrir kæla og annað slíkt. Með hugviti kaupmannsins á Vopnafirði er verslunin við það að fá græna vottun. Það verður þá fyrsta matvöruverslun á Íslandi sem fær slíka vottun.

Annað dæmi get ég nefnt, virðulegi forseti: Austur í Neskaupstað býr danskur maður sem heitir Jeff Clemmensen. Hann vinnur í hinu ágæta álveri og hafði mikinn áhuga á að lækka hjá sér húshitunarkostnaðinn. Þessi maður er búinn að setja upp varmadælu á heimili sínu sem hann kallar ísturninn. Ég þori ekki að hætta mér út í útlistingar á verkinu vegna þess að ég hef bara lesið um það í facebook-samskiptum okkar og annars staðar, en bíð spenntur eftir að fara þangað í heimsókn til að sjá verkið.

Þótt dælan og uppsetningin hjá þessum hugvitsmanni sé aðeins búin að ganga í tvo eða þrjá mánuði hefur þegar orðið veruleg lækkun á húshitunarkostnaði þar. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd ætti að bjóða viðkomandi til fundar, við gætum til dæmis tekið fjarskiptatæknina í notkun á nefndarfundi og hreinlega fengið vídeókynningu á því hvernig þetta virkar, ég tala nú ekki um ef nefndin færi austur á Neskaupstað og skoðaði þetta sjálf.

Ég nefni þessi tvö dæmi bara af handahófi af því að ég þekki mjög vel til þarna og hef fengið kynningu á þessu. Ég bíð bara eftir því að fara austur í Neskaupstað til að sjá þetta með eigin augum og sjá reikninga og fleira sem þessi ágæti maður ætlar að sýna mér. Hér er kominn góður rökstuðningur fyrir þjóðhagslegri hagkvæmni þess að fella niður virðisaukaskattinn af varmadælum og hvetja til þess að menn fari út í þá fjárfestingu.

Við erum að tala um að útvíkka aðeins átakið sem staðið hefur yfir og heitir Allir vinna. Það er í raun og veru enginn munur á þessu eða því hvort viðkomandi aðili fær að skipta um þak hjá sér eða glugga og fær endurgreiddan virðisaukaskatt af því sem gert er á staðnum.

Þannig yrði það væntanlega með dælurnar, bæði við uppsetningu og annað, en hér væri til viðbótar endurgreiddur virðisaukaskattur af kaupunum. Þess vegna segi ég að það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Það mun spara fólkinu á köldu svæðunum mikla peninga á komandi árum. En stofnkostnaðurinn er hár. Ekki eru allir tilbúnir að leggja út í svo háan kostnað í byrjun og fá svo ávinninginn mörgum árum síðar.

Munurinn á húshitunarkostnaði á landinu hefur verið mjög vinsælt umræðuefni á Alþingi. Hv. atvinnuveganefnd, þar sem við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sitjum, fékk kynningu á skýrslu sem gerð var á síðasta þingvetri. Þetta mál var líka umræðuefni hjá nefndinni þegar hún fór í heimsókn til Rariks á þriðjudaginn var. Þar útskýrði Rarik fyrir okkur öll þessi atriði. Þar kom fram að til að jafna húshitunarkostnaðinn hjá þeim hluta landsins sem er með háan húshitunarkostnað, til að hafa hann svipaðan og annars staðar, þarf 850 millj. kr.

Ég man að við breytingu á raforkulögunum voru settar inn 230 millj. kr. í niðurgreiðslur, sem ég kallaði gulrót á þeim tíma. Sú tala hefur staðið óbreytt síðan. Við þekkjum það í verðbólguþjóðfélagi okkar hvernig það hefur aflagast. Enda kemur það skýrt fram, bæði í greinargerð og fyrirspurnum sem settar hafa verið fram, að kostnaðurinn verður sífellt meira íþyngjandi.

Virðulegi forseti. Í hvert skipti sem ég fer á þessi svæði, það gerði ég í síðustu kjördæmaviku, er þetta eitt helsta umræðuefni íbúanna á þessum svæðum.

Ég með mitt jafnaðarmannahjarta tel að allar svona aðgerðir (IllG: Og jafnaðargeð.) — og líka jafnaðargeð, kallar hv. þm. Illugi Gunnarsson fram í, eins og við Siglfirðingar höfum. Það er alþekkt og það eru margir með þetta geð á hinu háa Alþingi, enda koma margir frá Siglufirði. En þetta er eitt af þeim brýnu málum sem við tökum allt of langan tíma í að ræða. Það er búið að skrifa alveg nógu margar skýrslur um það. Þá er bara spurningin: Hvernig ætlum við að laga þetta? Eigum við 850 millj. kr. til að setja í auknar niðurgreiðslur í dag? Nei, því miður, en niðurgreiðslurnar þarf að auka. Ég hef sagt að það væri kærkomið að geta tekið hluta af veiðigjaldinu í að jafna þennan kostnað. Þessi aðgerð er hins vegar þannig að hún snýst bara um að gefa eftir virðisaukaskattinn sem ekki kemur inn í landið og ekki er greiddur til ríkisins vegna þess að engar varmadælur eru keyptar. Þess vegna er þetta í raun bara út og inn.

Nú er komið að því að framkvæma. Það er þverpólitískur stuðningur við málið hjá þeim hv. þingmönnum sem leggja málið fram. Nú er það verkefni okkar, virðulegi forseti, að reyna að tala fyrir málinu og vinna það í gegnum nefndirnar þannig að það komi til Alþingis til lokaatkvæðagreiðslu. Þá sjáum við hvort við höfum ekki meiri hluta jafnaðarmanna á hinu háa Alþingi til að samþykkja tillöguna.

Ég vildi nefna þessi tvö dæmi, og nefni sérstaklega hið mikla framtak, framsýni og kraft sem er í þessum manni, Jeff Clemmensen, austur í Neskaupstað. Við þurfum að skoða þá reynslu sem þar er komin og tölur sem hann heldur vel utan um. Þær sýna hvað honum hefur tekist að lækka háan húshitunarkostnað með þessari aðgerð. Ég held að við þurfum ekki að hafa fleiri orð um það. Þetta er sanngirnismál, þetta er jafnréttismál.

Ég ítreka það sem ég segi:

Ef enginn hefur efni á að kaupa varmadælur fær ríkissjóður engan virðisaukaskatt. Ef við gefum þetta eftir koma dælur sem við endurgreiðum virðisaukaskatt af og ríkissjóður kemur út á núlli, en fjöldi manns getur þá lækkað mjög húshitunarkostnað sinn. Fólk hefur þá meiri peninga til að greiða upp annan stofnkostnað og hefur í framtíðinni meiri peninga til að nota í annað í hagkerfinu.