141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[17:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Já, eftirlit með eftirlitinu. Ég fyllist aðdáun á þingmanninum að hafa svona mikið álit á íslensku eftirliti, sérstaklega eftir að hafa lent svona illa í því sjálfur.

Mig langar að benda á, af því að við vorum að ræða um voðaverkin í Noregi 20. júlí í fyrra, nýútkomna skýrslu hjá norska þinginu sem ég fletti þegar ég var í Noregi um daginn í heimsókn. Það er átakanlegt að sjá og lesa hve illa norska lögreglan var undirbúin til að takast á við þetta. Er ekki betra að fókusinn sé á viðbrögðum? Það kemur fram í þessari skýrslu að í raun hefði verið hægt að stöðva hann af úti í eynni mun fyrr. Er ekki betra … (GÞÞ: Líka þegar hann var á leiðinni.) — já, einmitt, líka þegar hann var á leiðinni þangað. Það er átakanlegt að fara yfir þetta. Í þessu tilfelli hjálpuðu forvirkar rannsóknarheimildir ekki nokkurn skapaðan hlut, það vitum við, en ef áhersla lögreglunnar hefði kannski verið önnur hefði hugsanlega verið hægt að grípa inn í þetta ferli einhvers staðar á leiðinni.