141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:10]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér er um margt merkilega þingsályktunartillögu að ræða, áhugavert að lesa hana og reyna að meta hvaða áhrif hún muni hafa á menningarlífið og hvort þetta skili einhverjum stórkostlegum breytingum í stefnumótun hvað varðar það menningarlíf sem fyrir er. Ég held að það hafi kannski ekki verið tilgangurinn hjá ráðherra að bera þetta fram með þeim hætti heldur reyna að ramma þetta inn.

Ég vildi bera fram nokkrar spurningar í sambandi við tillöguna sem slíka. Ráðherra nefndi, og það kemur fram í tillögunni, varðandi mótun hennar að tekið hefði verið mið af ráðstefnunni Menningarlandið og síðan hefði verið leitað umsagna. En mér finnst lítið koma fram í greinargerðinni um það í raun hvernig þessi vinna fór fram við mótun stefnunnar. Horfum almennt til þess hvernig menn telja nú á dögum að rétt sé að vinna að stefnumótunarstarfi, þ.e. að rétt sé að draga sem flesta inn í það og að menn eignist svolítið stefnuna með því að vinna að henni — ég vil spyrja hæstv. ráðherra hversu mikið samtök listamanna og aðrir gerendur, sveitarstjórnir, frjáls félagasamtök og aðrir, hafa komið að þessu, hagsmunasamtök o.fl. Ég spyr einnig hvort greiningarvinna liggi að baki sem væntanlega hefur legið til grundvallar þegar stefnan var mótuð.

Í textanum kemur ekki fram að slík greiningarvinna hafi farið fram en ég trúi ekki öðru en hún sé til. Ég spyr hvort það sé einhvers staðar aðgengilegt, hjá ráðuneytinu eða á vefnum eða einhvers staðar þar sem menn geti metið það í heild hvernig þessi stefna hefur orðið til. Í framhaldinu væri kannski gott að heyra nokkur orð frá ráðherra um það hvernig hún hyggist innleiða þessa stefnu í kerfið. Hvernig eiga menn að vera þess meðvitaðir að þessi stefna sé til og hvernig eiga menn að taka mið af henni í störfum sínum að menningarmálum? Þetta er kannski almennt um tilurð þessarar stefnumótunar.

Við fyrstu sýn finnst mér að sjálfsögðu skynsamlegt að setja upp leiðarljós í upphafi, burt séð frá innihaldi, og síðan þá meginkafla sem fylgja á eftir. En það eru nokkrar spurningar varðandi þessi leiðarljós sem ég ætla að rekja hér í röð eftir því sem þau koma fram í tillögunni. Þá kannski fyrst varðandi d-liðinn í leiðarljósunum þar sem kemur fram að stuðningur stjórnvalda snúi einkum að starfsemi atvinnumanna á sviði lista og varðveislu og miðlun menningararfs. Þá vil ég spyrja hvort í þessu muni felast hætta á því að ef frjáls félagasamtök, og þeir sem eru að vinna að menningarmálum eða listastarfsemi í einhverri mynd, teljast ekki vera atvinnumenn sé þetta kannski leið til þess að vísa öllum stuðningi við þá frá af hálfu ríkisins. Við vitum að oft og tíðum er slík áhugamannastarfsemi aðdragandi að því að hægt sé að búa til atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar. Ég er með þessu að reyna að meta það hversu stíft menn ætla að fara eftir þeim orðum sem hér standa.

Í h-lið kemur fram að stjórnvöld eigi að meta árangur starfs þeirra menningarstofnana sem ríkið rekur og þá vil ég bara vita hvaða leiðarljós verða notuð í því mati. Er eitthvað til um það? Í j-liðnum er talað um að efla menningu barna og ungmenna og stuðla að því að þau séu virkir þátttakendur í menningarlífinu. Ráðherra nefndi það sjálf hér áðan hvernig stuðla eigi að því að börn geti sótt sinfóníutónleika og aðra listviðburði. Ég er þá að vísa til þess að börn á landsbyggðinni muni hugsanlega ekki eiga hægt um vik með það. Verður það leiðarljós fyrir þjóðmenningarstofnanirnar að reyna að passa upp á að börn vítt og breitt um landið geti nálgast þessa menningarviðburði?

Í k-lið er talað um að stjórnvöld eigi að greiða fyrir samstarfi ólíkra aðila í menningarlífinu. Mér finnst það gott og göfugt markmið og allt í lagi með það. En hvernig eiga stjórnvöld að stýra því starfi? Ég held að það geti verið býsna flókið. En gott og vel, það getur vel verið að fyrir þessu hafi verið hugsað með einhverjum hætti.

Í l-liðnum er talað um menningarsamningana og það árangursríka samstarf sem sveitarfélög og landshlutasamtökin hafa átt við ráðuneytið varðandi þá. Ég tek undir það og vona innilega að mönnum auðnist að fylgja þessu eftir og halda þessum menningarsamningum því að það hefur sannarlega sýnt sig, alla vega þekki ég vel til þess á Austurlandi, að þeir hafa skapað mikið og mikilvægt menningarstarf í fjórðungnum. Þarna er að vísu bætt við samstarfi við Reykjavíkurborg en að mínu mati hefði það mátt vera í öðrum lið. Það er af allt öðrum og stærri skala þar sem stuðningur við höfuðborgina er þannig í veldislegu hlutfalli miðað við það sem menningarsamningarnir eru.

Í nokkrum köflum þar á eftir er talað um menningarþátttöku, lifandi menningarstofnanir, samvinnu í menningarmálum og alþjóðasamhengið. Í kaflanum um menningarþátttöku, I. kafla, er lagt til að listfræðsla og að listkennsla verði efld í skólakerfinu. Það væri áhugavert að heyra frá ráðherra hvernig það á að gerast og hvernig fara á að því að veita aukið fé inn í skólakerfið. Væntanlega er verið að tala um skólakerfið á öllum stigum, leikskólann, grunnskólann, framhaldsskólann og háskólann. Sveitarfélögin eru með grunnskólann og eins og við vitum standa þau mjög misjafnlega að listfræðslu. En ég held að það væri mjög til bóta ef hægt væri að setja einhvers konar viðmið í því efni en sveitarfélögin eru auðvitað ekki ofhaldin af því sem þau hafa til reksturs grunnskólanna. Er einhver hugsun í þessu, að það komi aukinn stuðningur við sveitarfélögin út af listkennslu?

Í kaflanum um lifandi menningarstofnanir er í 7. lið markmiða nefnt að stjórnvöld setji sér langtímastefnu í húsnæðismálum menningarstofnana. Það er kannski svolítið sérstakt að í stefnunni skuli eiga að setja aðra stefnu. En gott og vel, ég tel þetta nauðsynlegt en svolítið sérstakt að þetta skuli vera þarna inni.

Ég sé að tími minn er búinn. Ég vil þá nefna þjóðmenningarstofnanirnar í tengslum við kaflann um samvinnu í menningarmálum. Ég sakna þess að ekki skuli vera sett inn í þetta plagg stefna eða einhvers konar skylda þjóðmenningarstofnana til að sinna samstarfi við landsbyggðina. Ég held að það skorti mjög mikið á að þjóðmenningarstofnanir séu þess meðvitaðar að þær hafi eitthvert hlutverk þar og hef þar nokkra reynslu. Ég teldi að það væri mjög gott að hafa slík orð inni í þessari stefnumörkun.