141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni Ríkisendurskoðunar hafa verið til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ljóst er af þeirri umræðu þar að ekki ríkir mikið traust hjá meiri hluta nefndarinnar til embættisins eins og er, sem er mjög vont bæði fyrir þingið og starfsmenn þeirrar stofnunar. En í tilefni af því er tvennt sem mig langar til að nefna sem gæti skipt máli til að koma þessum hlutum hugsanlega í lag.

Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja hvað líði vinnu við endurskoðun á lögum um Ríkisendurskoðun. Ég held að hún sé búin að vera í gangi í einhvern tíma og væri fróðlegt að vita hvernig sú vinna gengur og hvort þingmenn fái þá endurskoðun á sitt borð innan ekki of langs tíma.

Í öðru lagi langar mig til að beina því til forseta þingsins að það er eiginlega orðið bráðnauðsynlegt að setjast niður og ræða hvernig á að haga samskiptum þingsins við Ríkisendurskoðun. Nú eru þrjár nefndir að vasast í málefnum embættisins, þ.e. forsætisnefnd, fjárlaganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er líklegt að allar hafi nefndirnar hlutverki að gegna en það þarf að fastsetja hver á að leika hvaða hlutverk. Ég vona að forseti efni til fundar um hlutverkaskipan innan skamms.