141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi lýsa því yfir að ég hef skilning á því að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli flytja þetta mál með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Sú niðurstaða, sem virðist vera komin eftir töluvert japl, jaml og fuður, er nokkurn veginn í samræmi við það sem ætlunin var í upphafi. Síðan breyttist gangur málsins í meðförum allsherjarnefndar á sínum tíma og hljóðritanirnar komu inn án þess að það væri endilega svo mikill efnislegur stuðningur við það ákvæði. Það átti sér ákveðnar pólitískar skýringar, en málið er komið í hring, ef svo má segja.

Ég vildi spyrja hv. þingmann vegna efnisatriða þessa frumvarps hvort þær undanþágur sem þar er að finna varðandi upplýsingar af ríkisstjórnarfundum (Forseti hringir.) séu ekki svo víðtækar að þær geti náð til svo til allra þeirra þátta sem ráðherrar vilja að fari leynt.