141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er þetta mál margþætt. Ég vék að því í andsvari fyrr í dag að málið væri komið í ákveðinn hring, að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir nálgist nú þá niðurstöðu sem var að finna í upphaflegu frumvarpi þó að vissulega séu skýrari ákvæði í sambandi við fundargerðir á ríkisstjórnarfundum, og allt gott um það að segja. En sú undarlega sveigja, sá vinkill, sem kom á málið í meðförum allsherjarnefndar á sínum tíma hefur horfið.

Ég veit að margir hv. þingmenn hafa vikið að þessari forsögu nokkrum orðum en ég ætla að gera það frá mínum sjónarhóli. Þannig var að í september 2011 var frumvarp forsætisráðherra til breytinga á lögum um Stjórnarráðið til endanlegrar meðferðar á vettvangi allsherjarnefndar. Fram kom á fundum nefndarinnar að ekki væri meiri hluti fyrir því að afgreiða málið út nema orðið yrði við kröfu tveggja hv. þingmanna, Þráins Bertelssonar og Þórs Saari, sem hér hafa báðir talað, um að um hljóðritanir yrði getið í lagatextanum. Það kom skýrt fram af þeirra hálfu að það væri algert skilyrði fyrir því að þeir féllust á úttekt málsins úr allsherjarnefnd og styddu það eftir atvikum í þinginu.

Það er jafnframt alveg ljóst að töluverð andstaða var við þessa tilteknu breytingu, bæði í hópi þingmanna stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu. Það kom skýrt fram á fundum nefndarinnar, í umræðum sem þar áttu sér stað. Ég ætla ekki að rekja hvernig einstakir menn tóku afstöðu í þeim efnum en það var hins vegar alveg ljóst að meiri hlutinn, sem á endanum varð meiri hluti nefndarinnar sem skrifaði undir nefndarálit sem fól í sér þessa breytingartillögu, gerði það til að koma til móts við þessa tvo hv. þingmenn til að losa málið, sem auðvitað snerti miklu fleiri þætti í lögum um Stjórnarráðið, úr ákveðinni herkví sem það var komið í vegna þess að það naut ekki nægs stuðnings eins og það leit þá út. Ástæða þess, hygg ég, að þetta mál var afgreitt á þennan veg út úr allsherjarnefnd og á endanum afgreitt með þessum hætti í þinginu var ekki endilega sú að meirihlutastuðningur væri við hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum í þinginu heldur var það niðurstaða pólitískrar málamiðlunar eða hrossakaupa eða hvað við köllum það. Það var þannig.

Þetta var mál sem hafði ekki fengið mjög mikla skoðun þegar lagaákvæðið var sett inn og samþykkt. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það var en ég rifjaði það þó upp áðan að í nefndaráliti sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni á þeim tíma skrifuðum vöruðum við við þessu á þeirri forsendu að alls ekki væri búið að kanna nægilega vel hver áhrif umræddrar breytingar yrðu. Við reifuðum í örstuttu máli eitthvað sem okkur fannst geta verið bæði kostur og galli á þessari hugmynd. Kosturinn var kannski nákvæm skráning fyrir söguna ef við getum orðað það svo vegna þess að ekki var um það að ræða að birta ætti þessar upptökur fyrr en að 30 árum liðnum. Þetta var fyrst og fremst söguleg heimild að því leyti og við nefndum að það gæti vissulega verið kostur. Gallinn gæti hins vegar verið sá að það mundi breyta eðli ríkisstjórnarfunda, gera það að verkum að hugsanlega mundu umræður og sjónarmið sem ella hefðu komið fram á ríkisstjórnarfundi fara fram utan ríkisstjórnarfundar. Menn mundu einfaldlega ræða saman fyrir fund og eftir fund og hafa fundina svona snyrtilega afgreiðslufundi. Ekki það að ég eða við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðum álitið að það byggði á einhverjum sérstökum illvilja, hvorki núverandi ráðherra í ríkisstjórn né ráðherra í komandi ríkisstjórnum, alls ekki, heldur bara vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir fólk sem vinnur saman að geta stundum rætt saman án þess að það sé allt fært nákvæmlega til bókar. Það er bara eðli stjórnmála. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vorum ekki einir um þessa skoðun eins og þeir sem sátu í nefndinni á þessum tíma muna.

En svona fór þetta. Ákveðið var að taka þetta inn í frumvarpið áður en það var afgreitt. Á síðari stigum í málsmeðferðinni var reyndar ákveðið að fresta gildistöku þessa ákvæðis ef ég man rétt vegna einhverra sjónarmiða úr forsætisráðuneytinu, fyrst og fremst um að tæknilegir örðugleikar væru gagnvart því að taka þetta upp þá þegar — og allt í lagi, það breytti svo sem ekki eðli málsins. Um áramót í fyrra kom fram sjónarmið, upphaflega úr forsætisráðuneytinu, um að þetta væri enn ekki nægilega rannsakað mál og þess vegna var lögð til frekari frestun á ákvæðinu til 1. nóvember sem er nú eftir rétt um hálfan mánuð. Jafnframt kom fram að ráðuneytið mundi fara í fræðilega skoðun, getum við sagt, á því hver áhrifin af svona breytingu mundu verða.

Ég get alveg sagt það fyrir sjálfan mig að ég held að eðlilegt hefði verið að byrja á þeim enda áður en ákvæðið var samþykkt. Ég átti orðaskipti við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur áðan um það að auðvitað væri allt í lagi ef menn teldu að þeir hefðu gert mistök að leiðrétta það í lögum, það er bara hið besta mál. En ef kostur er er skynsamlegra að framkvæma rannsóknina eða athugunina áður en ákvæðið er samþykkt en ekki eftir að það er samþykkt. Það eru bara almenn vinnubrögð og ég vísa til þess að ég og að ég hygg fleiri í nefndinni töldu að þetta þyrfti að skoða miklu betur áður en frumvarpið yrði afgreitt. En afgreiðslan byggðist ekki endilega á stuðningi við efnisatriði þessa ákvæðis og byggðist ekki á sannfæringu fyrir því að þarna væri verið að stíga rétt skref heldur á því sem við getum kallað pólitíska málamiðlun eða, svo maður noti orð sem hefur á sér neikvæðari blæ, pólitískum hrossakaup.

Við munum hvernig ástandið var hér í þinginu í september 2011. Það lék allt á reiðiskjálfi. Það var að kvarnast úr stuðningi við ríkisstjórnina, meðal annars á vettvangi Vinstri grænna eins og menn vita og andrúmsloft var viðkvæmt. Þarna var valin pólitísk lausn til að koma þessu tiltekna máli, sem ríkisstjórnin lagði mikla áherslu á, í gegn. Og kaup kaups var það gert á þann veg að þeir þingmenn sem ella hefðu ekki stutt málið voru fengnir til stuðnings við það með því að taka umrætt ákvæði inn. Ég tel að þegar við horfum til baka þá sýni reynslan að það hafi verið rangt að gera þetta, það hafi verið óskynsamlegt af meiri hluta allsherjarnefndar og meiri hluta þingsins að samþykkja þetta að óathuguðu máli eins og gert var haustið 2011.

Ég held að horfa eigi á þetta sem ákveðið fordæmi um það hvernig ekki eigi að afgreiða lagafrumvörp. Hvaða skoðun sem við höfum á því hvort upptökutæki eigi að vera í gangi á ríkisstjórnarfundi eða ekki þá er öllum ljóst að þetta er umtalsverð breyting, róttæk breyting, frá því sem verið hefur, umtalsverð breyting frá ríkjandi fyrirkomulagi og það hefur komið skýrt fram að hún á sér ekki heldur fordæmi í ríkisstjórnum annars staðar. Menn voru að fara út í ákveðna tilraunastarfsemi. Lagabreytingin var samþykkt sem ákveðin tilraunastarfsemi. Hvað gerist núna rétt rúmu ári eftir að þessi lagabreyting var samþykkt? Jú, sami meiri hluti og samþykkti hana á sínum tíma er að leggja til að breytingin verði tekin til baka.

Ég nefni þetta, hæstv. forseti, vegna þess að svona dæmi eiga að vera til viðvörunar. Þetta á að vera til viðvörunar. Ég kemst ekki hjá því að nefna það í því samhengi að ákveðinn hluti þessa þings, við vitum ekki enn þá hve stór, vill gera tilraunastarfsemi með stjórnarskrána af sama tagi. Það á fyrst að samþykkja hana og svo á að prófa hvað kemur út úr atkvæðagreiðslunni. Það á fyrst að samþykkja breytinguna og svo á að prófa hvað kemur út úr því. Þar erum við ekki að tala um eitthvert eitt einstakt ákvæði í einum lögum. Við erum að tala um fjöldamörg atriði sem snerta grunnþætti í stjórnskipun okkar, mannréttindavernd og víðar. En það er svona. Það þjónar einhverjum pólitískum hagsmunum að gera þetta á þessa leið og þá eru viðvörunarorð að engu höfð. Ég kemst ekki hjá því að nefna þetta vegna þess að það litla dæmi sem birtist í þessu máli er vísbending um vinnubrögð sem ég hef áhyggjur af að verði viðhöfð í miklu stærri og mikilvægari málum.

Að lokum, hæstv. forseti, af því að hér er kallað fram í og höfð uppi ummæli úti í sal sem ég næ ekki að greina, vil ég skora á þá sem hafna því eða mótmæla að varað hafi verið við þessari lagasetningu 2011 að koma hingað upp og segja það. Ég skora á þá sem halda því fram að gera það, þá sem segja að ekki hafi verið bent á að þetta gæti haft afleiðingar, ófyrirsjáanlegar afleiðingar, gæti breytt mjög mörgu, þetta ætti sér ekki fordæmi, það væri ekki búið að kanna hvaða áhrif þetta hefði. Það var bent á það í nefndinni. Þeir sem mótmæla því að slík sjónarmið hafi komið fram skulu gera það hér í ræðustól en ekki með frammíköllum utan úr sal.

Ég bendi á að þetta er því miður alls ekki einsdæmi um vinnubrögð og umgengni meiri hlutans á þessu þingi um lagasetningu, þetta er alls ekki einsdæmi. Þó að ég geti sagt fyrir sjálfan mig að ég sé miklu sáttari við þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir af hálfu meiri hlutans en þá sem lá fyrir haustið 2011, kemst ég ekki hjá því að benda á þetta. Ég get bara ekki látið eins og þetta sé allt í lagi. Ég get ekki látið eins og þessi vinnubrögð hafi verið góð og fín og málefnaleg og fagleg. Auðvitað get ég ekki látið þannig. Ég verð að benda á það sem mér finnst misfarast í málum af þessu tagi, ég verð að gera það.

Menn geta að sjálfsögðu verið ósammála mér. Menn geta að sjálfsögðu verið þeirrar skoðunar að mjög vel hafi verið að þessari lagasetningu staðið í september 2011, að það hafi verið búið að kanna þetta mál í þaula og þess vegna hafi það komið mönnum á óvart að prófessorarnir Gunnar Helgi Kristinsson og Róbert Spanó hafi komist að þeim niðurstöðum sem þeir sendu síðan forsætisráðuneytinu sem tók undir þær og sendi til nefndarinnar. Menn geta haldið slíku fram en það stenst bara enga skoðun þegar forsaga málsins er rannsökuð.