141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðu hans. Ég er sammála því sem kom fram í máli hans, þetta er dæmi um arfaslaka lagasetningu. Það var alveg vitað, þegar fyrst var ákveðið að fresta gildistökuákvæðinu um þessa grein, að þetta var gert með vont bragð í munni. Það var ekki meiri hluti fyrir þessu hljóðritunarákvæði á ríkisstjórnarfundum þegar lögin voru samþykkt. Það segir okkur að sá meiri hluti sem nú situr kærir sig kollóttan um gæði lagasetningar.

Það er manndómsmerki að standa upp og biðjast afsökunar, draga ummæli sín til baka og viðurkenna mistök. Ég skil ekki hvers vegna sú leið er ekki farin í þessu máli. Ég skil ekki hvers vegna formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stendur ekki hér upp og segir frá því að það hafi verið mistök að setja þetta inn. Þetta var gert vegna þess að ákveðnir þingmenn hótuðu því að styðja ekki ríkisstjórnina nema hljóðritunarákvæðið kæmi inn. Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Hvers vegna er sú leið ekki farin sem rædd var síðast þegar þetta mál var á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingsins — við erum að taka þetta mál í þriðja sinn til umræðu — að 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands verði einfaldlega felld niður eins og tillaga kom um á síðasta þingi í stað þess að vera að fara í allt þetta orðskrúð og endurskrift á 4. mgr. sem kemst raunverulega að sömu niðurstöðu á undanþáguákvæðinu sem ég tel að verði beitt í flestum tilfellum varðandi upplýsingar af ríkisstjórnarfundi? Þar segir að ríkisstjórnin geti vikið frá þeirri reglu að birta upplýsingar af ríkisstjórnarfundum þegar málefnalegar ástæður (Forseti hringir.) réttlæta það. Ríkisstjórn getur í hvert sinn, ef um mjög mikilvægar málefnalegar ástæður er að ræða, lokað niður upplýsingar.