141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er vissulega í fínu lagi að hafa þennan frumvarpstexta eins og hann er með þeim ákvæðum sem þar standa. En þá spyr ég hv. þingmann: Þarf að lögfesta allt? Þarf að lögfesta það að ríkisstjórnin komi og kynni fjölmiðlum efni ríkisstjórnarfunda? Munum við ekki öll eftir því hvernig núverandi ríkisstjórn fór af stað? Var ekki blaðamannafundur eftir hvern einasta ríkisstjórnarfund þegar þessi vinstri velferðarstjórn tók við? Auðvitað gafst ríkisstjórnin fljótt upp á því. Ég veit ekki hvort það hafi verið út af því að það var ekki bundið í lög, að þeir skyldu hafa blaðamannafund eða hvað.

Hér er verið að ræða hvað skuli koma fram í fundargerð ríkisstjórnarfunda. Enginn þingmaður veit hvað kemur fram í fundargerðum ríkisstjórnarfunda, þ.e. þingmenn sem ekki hafa verið ráðherrar, því að það hvílir einfaldlega trúnaður yfir þeim. Hvernig stendur á því að við sem löggjafi getum verið að setja einhver frumvarpsdrög eða lagatexta þegar við vitum ekki nákvæmlega hvernig málið er í upphafi?

Auðvitað er þetta gott og blessað og líklega talið vera til mikilla bóta en ég minni á að ekki er hægt að setja lög um allt. Þess vegna kalla ég þessa breytingu á 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráðið mikið orðskrúð því að það er verið að falla kurteislega frá ákvæðinu um hljóðritanir til að friðþægja einhverja þingmenn eða gera tilraun til þess. Þetta er sett þarna fram í löngum texta sem birtist í frumvarpinu og svo, eins og ég segi, er náttúrlega lokað á þennan jákvæða texta í lok greinarinnar þegar beinlínis kemur fram í frumvarpsdrögunum að hægt verði að taka ákvörðun um það við ríkisstjórnarborðið að ekkert verði birt að ríkisstjórnarfundi loknum. (Forseti hringir.) Ég endurtek orð mín frá því í morgun og get ekki annað: Mér finnst felast mikil hræsni í þessu frumvarpi.