141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:23]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Siðgæði, lýðræði, valddreifing, ábyrgð, gegnsæi, réttlæti. Þetta eru orð sem voru meðal þeirra gilda sem þjóðfundur 950 manna valdi tveimur árum eftir hrun haustið 2010 og stjórnlagaráð byggði vinnu sína á.

Fyrir fjórum árum var íslenskt samfélag í upplausn. Stjórnvöld höfðu brugðist gjörsamlega, helstu eftirlits- og stjórnsýslustofnanir höfðu reynst leiðitamir dansfélagar siðblindu og græðgi. Það var ekki aðeins hin ráðandi pólitíska stefna frjálshyggjumanna sem varð gjaldþrota, Seðlabankinn og einkavinavæddir risabankar urðu það líka. Og við erum enn að glíma við afleiðingarnar. Bara í gær var upplýst að gjaldþrot Seðlabankans hefði kostað hvert einasta mannsbarn á Íslandi 800 þús. kr.

Hrunið var sannarlega efnislegt en það var um leið sálrænt áfall fyrir þjóðina í heild, menn misstu vinnuna þúsundum saman, verðbólga og vextir ruku upp, skuldir heimilanna tóku stökkbreytingum, krónan féll um helming, sett voru hryðjuverkalög á landið, það var aðeins til gjaldeyrir til kaupa á lyfjum og olíu til þriggja mánaða.

Hvað kemur þetta svo stjórnarskránni við? spyrja menn. Jú, á slíkum stundum hugsa menn ráð sitt, huga að grunngildunum, líta í eigin barm og spyrja sig: Hvað fór eiginlega úrskeiðis? Hverju þarf að breyta? Svarið var: Nánast öllu. En kröfurnar sem hljómuðu í þetta hús frá Austurvelli voru ótrúlega samhljóða: Skipta út ríkisstjórninni, kjósa upp á nýtt, skipta um í brúnni í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og setja á stofn stjórnlagaþing til þess að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Það heyrist gjarnan að hrunið hafi ekki verið stjórnarskránni að kenna og það má til sanns vegar færa. En staðreynd er að í henni reyndist lítið hald og ekkert aðhald fyrir þá sem fóru óáreittir sínu fram í stjórnmála- og viðskiptalífi. Það sýnir skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og það sýnir líka skýrsla þingmannanefndarinnar vel en Alþingi samþykkti einmitt 63:0, munið þið, tillögur þingmannanefndarinnar um að endurskoða stjórnarskrána.

Af hverju skyldu menn vilja endurskoða stjórnarskrána nú eins og á árinu 1944? Jú, stjórnarskráin geymir grunnreglur samfélagsins, þær sem stjórnskipan landsins byggir á, um valdmörk og ábyrgð stjórnvalda, um aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, um eftirlit með stjórnvöldum almennt, um lýðréttindi og geymir þær reglur sem öll önnur lög skulu byggja á. Stjórnarskráin er sem sagt það bjarg sem byggt skal á, eins og einhver kynni að orða það, og okkar samfélag þarf aðrar undirstöður en þær sem kóngsveldið skildi eftir sig og nær aftur til einveldisins. Þess vegna var sú krafa uppi og skiljanlega eftir hrun að skrifuð skyldi ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og við henni var brugðist, því að hálfu ári eftir hrun, vorið 2009, lögðu forustumenn allra flokka á Alþingi, nema Sjálfstæðisflokksins að sjálfsögðu, fram frumvarp um að kosið skyldi til stjórnlagaþings sem skrifaði nýja stjórnarskrá lýðveldisins. Í því frumvarpi, sem Framsóknarflokkurinn var m.a. aðili að, var einnig ákvæði um að 15% þjóðarinnar gætu kallað mál til þjóðaratkvæðis og að allar náttúruauðlindir sem ekki væru háðar einkaeignarrétti skyldu vera þjóðareign sem ekki mætti selja eða láta varanlega af hendi. Þannig var nú það.

Það frumvarp náði ekki fram að ganga en hins vegar náðist samstaða allra flokka um það í allsherjarnefnd á árinu 2010 um að efnt skyldi til þjóðfundar, sett skyldi niður stjórnlaganefnd, kosið til stjórnlagaþings og að stefnt skyldi að þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur þess áður eða eftir að þingið hefði afgreitt það. Forseti þingsins tók við tillögum stjórnlagaráðs 29. júlí, fyrir rúmu ári síðan, og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur síðan fjallað um þær og tekið þær til efnislegrar meðferðar.

Það er rangt sem hér hefur verið haldið fram að engin umræða, athugun eða skoðun hafi farið fram í nefndinni á þeim tillögum. Það liggur fyrir í greinargerð eða yfirliti frá nefndinni að nefndin hélt yfir 20 fundi og hún fékk á fimmta tug gesta, hún fékk ótal ábendingar, umsagnir og tillögur og hún hitti bæði formenn einstakra nefnda í stjórnlagaráði og stjórnlagaráðsmenn.

Nú hefur þessu frumvarpi stjórnlagaráðs verið vísað til þjóðarinnar, og Alþingi ákvað í vor að óska eftir leiðbeiningum frá þjóðinni um framhaldið. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er reiðubúin og hefur undirbúið sig undir það að taka við leiðbeiningu þjóðarinnar eftir kosningarnar á laugardaginn kemur og vinna áfram með það í þeirri von að við getum fyrir kosningar næsta vor lokið verkefninu og sett Íslandi nýja stjórnarskrá.

Frú forseti. Ég ætla ekki að segja mönnum hvað þeir eigi að gera á laugardaginn, en ég ætla að segja fólki hvað ég ætla að gera og minna á að með hjásetu og heimasetu eru menn að veita þeim sem mæta á kjörstað umboð sitt til þess að ráða niðurstöðu máls. Ég er ekki sammála öllu því sem stendur í tillögum stjórnlagaráðs en þær eru að mínu mati góður grundvöllur fyrir frumvarp að nýrri stjórnarskrá en það er einmitt fyrsta spurningin sem upp er borin. Ég mun því segja já við þeirri spurningu. Það eru margar ástæður fyrir því en ég ætla að sýna ykkur hér eina.

Í þessum ágæta bæklingi sem Alþingi gaf út eru öðrum megin sett upp ákvæði, tillögur stjórnlagaráðs, og hinum megin ákvæðin sem eru í stjórnarskránni okkar. Þessi síða er algjörlega auð, hún er alveg auð, vegna þess að í núgildandi stjórnarskrá er ekki að finna stafkrók um menningarverðmæti, um náttúru Íslands og umhverfi, um náttúruauðlindir, aðgang að upplýsingum og málsaðild.

34. gr. tillagna stjórnlagaráðs er mér hjartfólgin. Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeign séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar, þær megi aldrei selja eða veðsetja og þær skuli nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina alla.

Herra forseti. Ég hlakka til að taka þátt í kosningunum á laugardaginn og segja já við þessari spurningu og ég hvet menn til þess að fjölmenna á kjörstað á laugardag.