141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það fór eins og maður óttaðist, að að lokinni þessari þjóðaratkvæðagreiðslu færu menn að túlka niðurstöður. Ég verð að segja að þarna komu fram ýmis skilaboð. Ef við rýnum aðeins í niðurstöðurnar er það rétt sem hér hefur komið fram, tveir þriðju þeirra sem mættu á kjörstað studdu það að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Það er líka staðreynd að þriðjungur þeirra sem mættu á kjörstað var því andvígur. Það er enn fremur staðreynd að helmingur atkvæðisbærra manna kaus að sitja heima og taka ekki þátt í þessari atkvæðagreiðslu af einhverjum ástæðum sem við getum ekki nema getið okkur til um.

Fyrir atkvæðagreiðsluna heyrðum við að það var meiningarmunur um það hvort breyta mætti efnislega tillögum stjórnlagaráðs ef þjóðin samþykkti eða hvort það mætti ekki. Þjóðin sem hér er svo margrætt um, þ.e. þeir tveir þriðju atkvæðisbærra manna sem tóku þátt eða reyndar í þessu tilviki meiri hluti þeirra sem tók þátt, tók þá ákvörðun að breyta tillögum stjórnlagaráðs sjálfs með því að samþykkja að þjóðkirkjan yrði áfram í stjórnarskrá. Kjósendur tóku sér sem sagt það vald að breyta þessu sjálfir.

Það er líka staðreynd eins og nafnið á þjóðaratkvæðagreiðslunni gefur til kynna, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs, að þessi niðurstaða er ekki bindandi heldur ráðgefandi. Nú er ábyrgð meiri hlutans á Alþingi mjög mikil og við höfum tækifæri til að ná sátt um þetta mikilvæga mál með því að taka tillit til allra þeirra sjónarmiða sem komu fram í þessari atkvæðagreiðslu, taka tillit til sjónarmiða þeirra sem greiddu atkvæði með, á móti og þeirra sem sátu heima. (Forseti hringir.) Við getum tekið þetta mál upp úr skotgröfunum, við getum leyst það, en það þarf ekki að gerast eins og hv. þm. Helgi Hjörvar lagði svo mikla áherslu á, endilega (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili. Það sem skiptir mestu máli er að við komum okkur saman um plagg sem getum öll (Forseti hringir.) átt hlut í.

(Forseti (RR): Forseti áréttar að þingmenn virði tímamörk.)