141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

ætlað samþykki við líffæragjafir.

28. mál
[17:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa tillögu til þingsályktunar eins og áður. Hún var flutt á síðasta þingi og þá ræddi ég þetta mál líka. Ég er afskaplega mikið á móti því að gera fólki upp þá skoðun að það vilji gefa líffæri. Nú hugsa ég að velflestir vilji það, en þau örfáu prósent sem ekki vilja það hafa oft trúarlegar og heimspekilegar og aðrar ástæður fyrir því að gefa ekki líffæri, trúa því jafnvel að þau komist ekki til himnaríkis eða eitthvað svoleiðis. Mér finnst þetta inngrip í frelsi einstaklingsins.

Ég benti síðast á afskaplega einfalda leið til að leysa þetta; að nota skattframtalið. Allir Íslendingar þurfa að telja fram og það er enginn vandi að setja einn reit í skattframtalið — það er reyndar einn reitur núna þar sem spurt er hvort framteljandinn vilji heimilistryggingu eða ekki — þar sem stendur: Viltu gefa líffæri eða ekki? Ég stakk upp á þessu síðast og vil spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hvort hún hafi hugleitt þá leið að nota skattframtalið.

Nú berast fréttir af skuggahliðum líffæragjafa sem maður trúir varla að séu til, en læknasamtök hafa haldið því fram að líffæri séu jafnvel tekin úr fólki ófrjálsri hendi, þ.e. það er bara lagt á skurðarborðið og skorið upp í sumum ríkjum og jafnvel fórnað til þess, sem er alveg svakalegt, maður trúir því varla.

Ég vil spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hvort hún hafi hugleitt það að nota skattframtalið til þess arna. Þá lægi ákvörðunin fyrir og þegar slys verða og það vantar skyndilega líffæri eða eitthvað slíkt er hægt bara að hringja í skattinn og hann veit þetta.