141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ítrekað fundað með fjármálafyrirtækjum um gengislánadóm Hæstaréttar frá því á fimmtudaginn var og það er sérstakt fagnaðarefni að tvö fyrirtækjanna, Landsbanki Íslands og Drómi, hafa þegar hafið vinnu við endurútreikning á þeim lánum sem falla undir fordæmisgildi dómsins. Ég vænti þess að önnur starfandi fjármálafyrirtæki, eins og Íslandsbanki og Arion banki, komi í kjölfar Landsbanka Íslands og Dróma.

Hitt hefur valdið okkur nokkrum áhyggjum, sú ankannalega afstaða fyrirtækisins Lýsingar að fordæmisgildi dómsins sé ekkert fyrir þeirra lánasafn og að það hyggist halda áfram innheimtum eins og ekkert hafi í skorist. Nú verður að telja nokkrar líkur á því að dómurinn hafi fordæmisgildi fyrir hluta af lánasafni Lýsingar, og þegar til þess er litið með hvaða hætti sagan er í þessum málum hefði maður ætlað að forráðamenn fyrirtækja á fjármálamarkaði mundu nálgast þá stöðu sem nú er uppi með ákveðinni auðmýkt, varúð og varfærni gagnvart viðskiptavinum sínum vegna þess að því miður hefur ítrekað verið gengið fram gagnvart fólki og fyrirtækjum með óréttmætum hætti.

Þegar nú enn á ný fellur dómur sem bendir til þess að fordæmisgildi febrúardómsins sé mjög víðtækt til skemmri lána, lögaðila og fleiri þátta hefði maður ætlað að forsvarsmenn og stjórnendur fjármálafyrirtækjanna mundu kappkosta að stíga varlega til jarðar og að það mundi eiga við um Lýsingu eins og önnur fjármálafyrirtæki. Þess vegna er afstaða Lýsingar í þessu vonbrigði og kallar á að við förum yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd með Fjármálaeftirlitinu sem fer með eftirlit á fjármálamarkaði (Forseti hringir.) með hvaða hætti megi tryggja sem allra best stöðu neytenda á þessum markaði og það að farið verði fram (Forseti hringir.) af ýtrustu varúð gagnvart þeim í því óvissuástandi sem verður (Forseti hringir.) þar til fleiri dómar falla.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að þeir virði ræðutímann.)