141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að vera að það flokkist undir áráttu að kenna Sjálfstæðisflokknum um alla mögulega hluti. Ég tel að það sé ósköp eðlilegt að rifja upp aðkomu Sjálfstæðisflokksins að þeirri eitruðu blöndu viðskiptalífs og stjórnmála sem hér ríkti fyrir hrunið. Ég orðaði það hins vegar á engan hátt hér áðan. Hv. þingmaður má ekki vera svo viðkvæmur. Það sem ég sagði var að 17 þingmenn úr öllum pólitískum flokkum og hreyfingum sem hér eru á Alþingi standi að þessari tillögu utan þingmanna og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er staðreynd, það er satt og rétt og það er engin áráttuhegðun fólgin í því að nefna það. Það er sjálfsögð kurteisi.

Hv. þingmaður hefur verið lengur en ég í þessum sölum og þekkir hvernig kallað er og óskað eftir meðflutningi úr þingflokkunum. Það er gert með því að ýmist starfsmenn eða 1. flutningsmenn senda tölvupósta til formanna þingflokka og biðja kurteislega um að leitað verði stuðnings. Síðan innir maður eftir því hvort einhver stuðningur er en í þessu tilfelli var því ekki svarað og enginn hefur lýst áhuga á því.

Hv. fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því hins vegar yfir í viðtali að Sjálfstæðisflokkurinn væri með tillögur af þessu tagi og þar að auki væri verið að skoða þetta í kerfinu og af því mátti ráða að henni þætti óþarft að flytja þessa tillögu.

Ég tel hins vegar að það sé mjög brýnt. Það er gott ef Sjálfstæðisflokkurinn verður með okkur í að samþykkja þessa tillögu, ég vona það og les það út úr orðum hv. þingmanns að það sé vilji Sjálfstæðisflokksins sem mun þá væntanlega styðja framgang þessarar tillögu þegar hún kemur hér til atkvæða.