141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skipulagsáætlun fyrir strandsvæði.

[10:41]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er varðar skipulag strandsvæða og gerð nýtingaráætlana fyrir strandsvæði. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa tekið frumkvæði í því að vinna strandsvæðaskipulag og móta aðferðafræði við þá vinnu. Í raun er hér um að ræða skipulagsáætlun sem tekur á nýtingu strandsvæða og er um brautryðjendaverkefni á Íslandi að ræða.

Markmiðið er að skipuleggja strandsvæði með svipuðum hætti og gert er á landi en skipulagsvald sveitarfélaga nær aðeins til lands, nánar tiltekið út að 115 metrum frá stórstraumsfjöruborði. Engar skipulagsáætlanir eru því í gildi um hvernig eigi að haga strandsvæðum utan þessara marka.

Sú nýtingaráætlun sem sveitarfélög á Vestfjörðum hafa unnið að síðastliðið ár miðast við þessi innri mörk og nær eina sjómílu út fyrir grunnlínupunkta landhelginnar. Nýting strandsvæða hefur breyst samfara aukinni þekkingu og umferð og tækni og hefur aldrei verið fjölbreyttari en nú. Fiskveiðar, kræklingarækt, kalkþörunganám og ferðaþjónusta eru dæmi um nýtingu sem fer fram í fjörðum í dag.

Aukin nýting strandsvæða Vestfjarða hefur meðal annars leitt til hagsmunaárekstra og aukins álag á umhverfi og því er heildstæð nýtingaráætlun afar mikilvæg fyrir svæðið. Skýrasta dæmi um það er mikil eftirspurn eftir svæði fyrir fiskeldi en nú er slíkt eldi nánast í öllum fjörðum Vestfjarða frá Patreksfirði að Ísafirði innst í Ísafjarðardjúpi. Sömu sögu er að segja frá austfirskum fjörðum og nýlegt dæmi þar um er að sótt var um fjölmörg leyfi fyrir eldi í einum og sama firðinum. Segja má að hálfgerð landnemastemning ríki í fjörðum landsins og því orðið afar mikilvægt að skipuleggja strandsvæðin.

Ég vil spyrja ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að afar mikilvægt sé að ráðast í gerð strandsvæðaskipulags og hvort hún sé ekki einnig sammála mér í því að nýtingaráætlanir og skipulag þeirra eigi að vera á forræði sveitarfélaga líkt og aðalskipulag.