141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

Þingvallavatn og Mývatn.

[10:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni afar mikilvægt umræðuefni hér en tíminn er ótrúlega skammur fyrir svo mikilvæg málefni, bæði þessi vötn sem skipa hvort um sig algjöra sérstöðu á heimsvísu, hvort af sinni ástæðu. Það er rétt sem hv. þingmaður tekur fram, Þingvallavatn heyrir undir Þingvallanefnd sem er á vegum þingsins. Hins vegar höfum við átt fundi, ég og forusta Þingvallanefndar og Pétur Jónasson sem er kannski sá náttúrufræðingur sem mest hefur skoðað stöðuna í vatninu og hefur af henni miklar áhyggjur. Fleiri sérfræðingar hafa komið að þeim fundahöldum og það sem áhyggjurnar beinast fyrst og fremst að til viðbótar við það sem hv. þingmaður nefnir eru þeir þættir þar sem mannleg aðkoma hefur raunverulega bein áhrif. Þá er kannski fyrst að nefna umferðina, áhrif af umferð og umferðarmengun á vatnið sjálft. Svo er það seyra vegna fráveitna frá sumarbústöðum og í þriðja lagi barrtré í garðinum sem hafa áhrif á niturmagnið í vatninu.

Þetta er allt saman áhyggjuefni og að því er varðar barrtrén er sérstaklega til þess tekið í skilmálum UNESCO að þau heyri ekki undir náttúrulegan gróður í garðinum og þurfi sérstaklega að taka á því. Aðkoma umhverfisráðuneytisins er ekki bein. Hún er einungis í gegnum þær mælingar og þá aðkomu sem Umhverfisstofnun hefur að einstökum þáttum. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að friðlýsingin þyrfti að ná til miklum mun stærra svæðis og það sama gildir auðvitað um Mývatn og Laxá. Við höfum unnið að því að auka friðlýsingar þar í kring en eins og þingheimur vonandi veit var sveitarfélagið nánast affriðlýst með sérstökum lögum fyrir nokkrum árum.