141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 167/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

279. mál
[15:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hafi mér með því að flytja þetta þingmál tekist að gleðja hv. þingmann verð ég að segja að ég hef haft erindi sem erfiði. Hins vegar veit hv. þingmaður að mér er umhugað um, alveg eins og henni og hinu mikla sambandi sem þetta varðar, að gera það sem hægt er til að létta fyrirtækjum og einstaklingum lífið. Allt þetta ferðalag er ekki síst til þess að búa svo um hnútana að sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki fái tækifæri til að láta sig ekki bara dreyma drauma um að stækka, heldur að vinda þeim í framkvæmd og verða stór. Ákaflega margar af þeim tiltölulega tafsömu, þurru og stundum ekki mjög skemmtilegu tilskipunum, sem ég flyt hér þingmál um til að unnt sé að leiða í lög hér á landi og hrinda til framkvæmdar, miða að því einmitt að létta slíkum fyrirtækjum lífið, skapa fleiri störf, auka verðmæti, auka fjölbreytni á atvinnumarkaði og í fyrirtækjaflórunni.

Ég veit að ég og hv. þingmaður leitum gjarnan eftir tilefnum í lífinu til að gleðjast. Hér er eitt sameiginlegt tilefni. Ég veit líka að við höfum það að sameiginlegu leiðarljósi að létta fyrirtækjum og einstaklingum tilveruna þó vera kunni að við teljum mismunandi leiðir færar að því og það sé hugsanlegt að við séum ekki alveg sammála um að það liggi í gegnum Evrópusambandið. Eigi að síður gladdi hv. þingmaður mig með ræðu sinni. Þar með tel ég að tilefni hennar til að koma hér í ræðustól sé líka ærið.