141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

fríverslunarsamningur við Kína.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrr á þessu ári kom forsætisráðherra Kína hingað í heimsókn með stóra sendinefnd. Ýmislegt bar til tíðinda í þeirri heimsókn, m.a. það að kínversk og íslensk stjórnvöld ákváðu að taka aftur upp viðræður um gerð fríverslunarsamnings milli Íslands og Kína, en viðræður um þann fríverslunarsamning höfðu þá legið niðri í nokkurn tíma. En með því að forsætisráðherra Kína var kominn hingað og þetta var tilkynnt meðan á dvöl hans hér á landi stóð var öllum ljóst að því fylgdi mikil alvara.

Hæstv. utanríkisráðherra fylgdi þessu eftir skömmu eftir að kínverski forsætisráðherrann var farinn aftur með sendinefnd sína til síns heima og staðfesti í viðtali við Vísi í sumar að ákveðið hefði verið að halda tvær samningalotur á þessu ári, sú fyrri yrði í Beijing í september og sú síðari í Reykjavík í árslok. Heildarniðurstaðan ætti síðan að liggja fyrir fyrir lok næsta árs þannig að það er á að giska ár í að við ljúkum fríverslunarsamningi við Kína miðað við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

Síðan utanríkisráðherra var í þessu viðtali við Vísi virðist lítið hafa gerst, það hefur að minnsta kosti ekkert heyrst frá viðræðunum og ekkert verið birt á heimasíðu ráðuneytisins. Ég vil þess vegna bera það upp við hæstv. utanríkisráðherra hvort virkilega hafi ekkert gerst frá því að þessar digru yfirlýsingar voru gefnar. Ef svo er, hvers vegna? Ætlar ríkisstjórnin sér að setja Evrópusambandsumsóknina í forgang og ýta þannig til hliðar svona fríverslunarviðræðum? Ef svo er, hvers vegna eru menn þá að gefa slíkar væntingar? Að minnsta kosti (Forseti hringir.) er tími til kominn að menn geri grein fyrir því hver staða málsins er.