141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við búum í landi þar sem allra veðra er von eiginlega allan ársins hring. Það bárust tíðindi af því, ég sá það í hádeginu í frétt á Smugunni, að Samband ungra sjálfstæðismanna er búið að finna lausn á þessu. Hún er sú að leggja niður Veðurstofuna. Þá hljótum við að vera laus við þetta.

En að öllu gamni slepptu vil ég taka undir með þeim sem hafa talað á undan mér að við verðum að læra af þessum veðrum. Þegar við förum yfir þetta í heild sinni held ég að við getum ýmislegt lært. Ég held að við þurfum að vera óhræddari við að vara við hættu. Við þurfum líka að vera óhræddari við að biðja um aðstoð þegar við þurfum á henni að halda. Ég held að það hefði þurft að gera það fyrr.

Ég held að við þyrftum að huga að því að leggja raflagnir í jörð í ríkari mæli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem raflínur slitna af völdum veðurs. Ein hugmynd í viðbót sem ég hef rætt við þá sem hafa vit á þeim málum er að nýta hunda mun meira til að leita að fé, reka það og finna það. Bændur sjálfir þurfa að hafa frumkvæði að þjálfun þeirra því að það er ekki hægt að nota hunda sem eru þjálfaðir til að leita að mönnum til að leita að fé. Það þyrfti að gerast að frumkvæði bænda. Að öðru leyti vil ég taka undir með þeim sem hafa talað á undan mér, við þurfum að læra af þessu — og hafa Veðurstofuna áfram.