141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, hv. þingmaður lýsir því yfir að hann sé hjartanlega sammála því að það þurfi að rannsaka þetta en ekki núna. Það eru skilaboðin sem ég fæ.

Virðulegi forseti. Ef þetta er málflutningur stjórnarandstöðunnar, að þau séu tilbúin til þess að styðja þessa breytingartillögu mína og hefja rannsókn á einkavæðingunni síðari og o.s.frv., þá er tækifærið akkúrat núna, ekki seinna. Það tefur rannsóknina.

Það tefur rannsóknina að ætla að fara fram með rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari seinna. Þetta er svo sem málflutningur sem maður kannast við úr herbúðum stjórnarflokkanna. Þetta er ekkert nýtt af nálinni því að ég hef lagt fram margar breytingartillögur í hinum ýmsu málum, eins og til dæmis að þjóðin fengi að segja álit sitt á ESB umsókninni í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór fram 20. október. Jú, þau voru alveg sammála því að það þurfi einhvern tímann að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Ekki núna, seinna. Það er verið að opna á það að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna séu sammála öllum þessu góðu málum, tillögum og breytingartillögum sem við í stjórnarandstöðunni leggjum hér fram en bara ekki núna.

Virðulegi forseti. Þetta er afar skrýtið. Svo telur hv. þm. Skúli Helgason að þetta hafi ekki verið einkavæðing sem var mikilvæg vegna þess að ríkið var ekki að flytja ríkisfyrirtæki í hendur einkaaðila. Það var akkúrat það sem gerðist 2010. Bankarnir voru í fangi ríkisins. Þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, færði bankana yfir í hendurnar á einkaaðilum. Þá var ekki einkavæðingarnefnd, engin rannsókn að baki, ekkert verðmat. Það var tekin einhliða ákvörðun um að gera þetta eina nóttina og við sitjum uppi með það og það má ekki rannsaka, ekki núna.