141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í seinni ræðu minni ræða tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um breytingar á þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum nú, sem snúa að því, eins og komið hefur fram, að farið verði yfir það sem kallað er í daglegu máli einkavæðinguna hina síðari. Þó að það sé alveg hárrétt sem fram hefur komið að deila megi um nákvæmni þess orðalags breytir það ekki því að þegar sá gjörningur fór fram var tekin mjög afdrifarík ákvörðun sem hefur fjárhagslega þýðingu fyrir íslenskt samfélag.

Það sem skiptir verulega miklu máli þar, virðulegi forseti, er sá þáttur málsins sem drepið er á í tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samhliða framangreindu fjalli nefndin um og geri opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf., Glitni og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, NBI hf. (síðar Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (síðar Arion banka hf.), og hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.“

Það skiptir auðvitað máli í þeirri stöðu sem við erum í núna. Þetta skiptir máli varðandi gjaldeyrishöftin og möguleika okkar til að losa okkur undan þeim.

Í máli hv. þm. Skúla Helgasonar kom fram að hann væri efnislega sammála því að slík rannsókn færi fram. Ég ætla að leyfa mér að segja, virðulegi forseti, að ef við horfum á mikilvægi þessara mála og í hvaða röð við eigum að ráðast í þau er þetta mál auðvitað miklu brýnna. Því ættum við að ráðast fyrst í þessa rannsókn af því að hún hefur mikið að segja um nýliðna sögu og þær ákvarðanir sem fram undan eru, meðal annars vegna uppgjörs hinna föllnu banka. Því væri skynsamlegt að við skoðuðum þetta núna og snerum þessu við frá því sem hér stefnir í, að það verði fyrst ráðist í að rannsaka einkavæðinguna sem átti sér stað fyrir um áratug síðan sem hefur nú þegar verið rannsökuð töluvert mikið, og er ég þá ekki að kveða fast að orði, af hálfu Ríkisendurskoðunar. Í fyrri ræðu minni benti ég á þann fjölda skýrslna, úttekta, greinargerða, minnisblaða og samantekta sem frá þeirri stofnun hafa streymt vegna þessara mála, og að það væri mikilvægt fyrir okkur að þessi hluti rannsóknarinnar, sá sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir leggur til, verði fyrst unninn og við gætum þá nýtt okkur þær niðurstöður í þeirri vinnu sem fram undan er, sérstaklega og einkum vegna afnáms gjaldeyrishaftanna og þeirrar stöðu sem þar er komin upp.

Virðulegi forseti. Það hefur meðal annars komið fram að menn hafa áhyggjur af því að það mat sem lá fyrir um hvernig eignum þessara búa væri skipt, hvert hlutfall innlendra og erlendra aðila hafi verið, hafi jafnvel reynst rangt, sem hefur gríðarleg áhrif á stöðu þjóðarbúsins. Við gætum einmitt í slíkri rannsókn, eins og þeirri sem lögð er til, fengið ýmis svör um þennan þátt málsins, hvernig að þessu var staðið.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera hægt að ná samstöðu um það á Alþingi að snúa þessum hlutum þannig að fyrst fari þessi rannsókn fram og síðan sú rannsókn sem lögð er til í þingsályktunartillögunni. Eða þá, virðulegi forseti, ef svo vill verkast að það fari þá bara fram samhliða. En ég er sammála því sem fram hefur komið að það sé sjálfsagt mál að fela sömu nefndinni vinnuna því að erfitt er að finna fólk til þessara starfa. Það hefur komið fram að ekki er auðvelt að manna rannsóknarnefndir. Það væri því ágætt að rannsóknarnefndin, ef hún yrði sett á laggirnar, mundi byrja á þeim þætti málsins, klára hann, þ.e. nýliðna sögu, og nefndin hefði þá þann tíma sem hún þyrfti til að klára það fyrir kosningar, sem ég held að hún gæti svo sem gert, þ.e. ef hún væri aðeins í þeim málum sem um er að ræða í þingsályktunartillögunni. Ef hún ræðst fyrst í þetta og síðan í einkavæðingu bankanna frá því fyrir tíu árum þá skiptir ekki máli hvort hún skilar af sér í vor eða haust eða síðar. Aðalatriðið er að fá þennan þátt málsins strax fram. Þetta skiptir okkur máli í núinu og getur verið okkur til leiðbeiningar og leiðsagnar um hvaða skref við tökum næst varðandi afnám haftanna.

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á hvernig hægt væri að snúa sér í því máli öðruvísi en að samþykkja tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur með þeim skilningi, og það komi fram hjá framsögumönnum málsins að nefndinni verði ætlað það verklag að hefjast handa fyrst við tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.

Mig langar að segja að lokum, virðulegi forseti, og vil endurtaka það að það er sjálfsagt mál að við skoðum þessa hluti ofan í kjölinn og ég vil að það verði gert. Það er óþolandi fyrir nafngreinda einstaklinga, sem hafa unnið þessa vinnu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á sínum tíma, eða einstaka ráðherra að sitja undir endalausum dylgjum um að einhver óeðlileg sjónarmið hafi verið að baki sölu bankanna. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir alla aðila að rannsóknin fari fram. Það er heppilegt að nú þegar hefur verið svarað af hálfu Ríkisendurskoðunar stórum hluta þeirra spurninga sem lagt er upp með í því þingskjali sem er til umræðu, það flýtir fyrir vinnunni. Því fyrr sem þessi rannsókn er unnin, því betra.

Ég vonast til þess að við leggjum málið upp með þeim hætti að rannsóknin verði fyrst unnin í samræmi við tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og síðan verði ráðist í hina áratugargömlu einkavæðingu þeirra banka sem lagt er til í þingsályktunartillögunni sem við ræðum.