141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[18:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því tilefni vil ég ítreka að það á að vera hægt að ná góðri sátt um málið á þinginu. Engin ástæða er til að fara fram með málið í einhverju ósætti vegna þess að enginn getur lagst gegn því að kallaðar verði fram upplýsingar um hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna.

Haft hefur verið á orði að fræðimenn eða blaðamenn hafi ekki haft aðgang eða fengið aðgang að gögnum. Ég kallaði eftir því í samræðu við hv. þm. Lúðvík Geirsson hvort hann kynni einhver nákvæm dæmi um slíkt því að það væri áhugavert. En í greinargerðinni komu ekki fram nein tiltekin dæmi um að ekki hefðu fengist upplýsingar sem kallað var eftir. Ég kallaði einnig eftir því hvort Ríkisendurskoðun hafi gert athugasemd við það að hún hafi ekki fengið aðgang að gögnum til að undirbyggja og grundvalla svör sín. En ef svo er að gögn leynist einhvers staðar sem nauðsynleg eru til að varpa frekara ljósi á málið er auðvitað mikilvægt að hægt sé að leiða þau fram. En enn á ný, ég hef ekki heyrt í þessari umræðu um hvaða gögn gæti nákvæmlega verið að ræða. En eins og ég segi, það ætti ekki að vera neinn pólitískur ágreiningur um málið.

Ég get þá heldur ekki skilið að einhver pólitískur ágreiningur sé um það sjálfsagða verklag að fyrst verði hafist handa við að greina einkavæðinguna hina síðari, eins og kallað er í dagsdaglegu máli, vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur að fá þau gögn sem skýrust upp á borðið einmitt núna. Fram undan er ýmis ákvarðanataka um afléttingu haftanna og þá skiptir miklu máli að þingmenn hafi mjög góða sýn og skilning á og (Forseti hringir.) upplýsingar um hvernig að uppskiptingu bankanna var staðið.