141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[15:53]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er brýn og þörf eins og svo oft áður.

Veiðigjöld verða að sjálfsögðu að vera hluti af breytingum á kvótakerfinu í heild sinni og úthlutun aflaheimilda. Ekki er hægt með neinni skynsemi að aðskilja það. Hvað varðar veiðigjöldin verðum við líka að horfa á að hvergi er eðlileg verðmyndun neins staðar í fiskveiðigeiranum eins og hann leggur sig. Og það að hafa einhvern stærsta og mikilvægasta geira efnahagslífsins óverðlagðan með öllu gengur ekki. Heimildirnar sem slíkar eru ekki verðlagðar á markaði, aflinn úr skipi í hús er ekki verðlagður á markaði, aflinn sendur úr landi eða fullunnin vara er ekki verðlögð gagnsætt.

Það gengur augljóslega ekki að hafa svona kerfi viðvarandi enda hefur það komið í ljós á undanförnum árum hvað hefur verið gert við arðinn úr þessari grein. Gegndarlausar óráðsíufjárfestingar í flestu öðru en í greininni sjálfri og ég tala nú ekki um, sem að vísu hefur komið í höfuðið á mönnum aftur, persónuleg þyrlukaup og slíkur leikaraskapur í þeim anda.

Það gengur ekki að hafa allan sjávarútvegsgeirann án eðlilegrar verðmyndunar. En það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að hann borgi eitthvert verð fyrir aflaheimildirnar sem hann ræður ekki við. Þá kemur að því að láta útgerðina einfaldlega greiða það verð fyrir heimildirnar sem hún telur sig geta með uppboði á aflaheimildum. Það tryggir að ekki er greitt meira fyrir heimildirnar en menn geta.

Í framhaldinu þarf svo að sjálfsögðu allur afli að vera seldur á markaði, á fiskmörkuðum. Arðurinn af uppboðunum þarf náttúrlega að renna til sjávarbyggðanna þar sem veiðarnar eiga sér stað en ekki beint í ríkissjóð, því að samhliða þessu tala menn um að efla þurfi byggð í landinu og það er ekkert sem mun efla (Forseti hringir.) byggð frekar í landinu en einmitt þetta, að arðurinn af veiðunum verði eftir í sjávarplássunum.

Ég leyfi mér að benda á í lokin (Forseti hringir.) að frumvarp Hreyfingarinnar um fiskveiðistjórnarmál tekur einmitt á öllum þessum vandamálum sem menn eru endalaust að karpa um.