141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vísir menn hafa rakið hrunið, ekki aðdragandann, þá dramatísku daga þegar það varð, heldur með yfirsýn yfir áratugina, til þess að gervieignamyndun varð af breytingum í kvótakerfinu, til þess að einkavæðing bankanna fór fram undir gunnfánum helmingaskipta þeirra tveggja flokka sem mestu réðu fram að hruni og til þess að gömul og góð gildi töpuðust í villtum gróðadansi sem spratt ekki síst af hugarfari nýlíberalismans. Ég fagna því að við skulum að minnsta kosti vera að ráðast í rannsókn á einum þætti þessara orsaka og tel að á síðari tímum muni verða litið til þessarar rannsóknar af mikilli forvitni.