141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða. Ef enginn hefði gert neitt 1984 og sjávarútvegurinn og þeir sem nýttu auðlindina hefðu haldið sínu fram og fiskurinn klárast hefði ekki verið nein auðlind, engin eign, ekki neitt. Það var takmörkun ríkisins sem skapaði auð. Það er einmitt spurning hvort ríkið eigi ekki að fá eitthvað fyrir sinn skerf fyrir að hafa takmarkað aðganginn. Ég er ekki að segja að hann eigi að fá allt en hann á að fá sinn skerf. Mér finnst svona almennt liggja í loftinu að menn vilji að „þjóðin“ fái auðlindarentuna.

Það er spurning hvort það eigi ekki að gefa takmörkuninni ákveðið gildi. Og svo komi nýtingarrétturinn til viðbótar. Hann einn og sér hefði bara keyrt þetta allt í rúst.

Það er takmörkunin sem býr til auðlindina, þegar aðrir fá ekki aðgang. Ég nefndi áðan að það væru til alls konar takmarkanir, t.d. er hv. þingmaður hindraður í því að fara inn í íbúðina mína. Eignarrétturinn takmarkar aðgang að henni nema ég leyfi. Hann getur endilega komið sem gestur.

Það er akkúrat takmörkunin sem gefur eignarréttinum gildi. Þegar nauðsynlegt er að takmarka aðgang með atbeina ríkisins er spurning hvort ríkið, ég mundi nú segja þjóðin, eigi ekki að fá sinn skerf. Þarna komum við kannski að kjarna málsins. Ég vil fá hv. þingmann til að ræða hvort það séu bara þeir sem voru að veiða sem eiga að njóta takmörkunarinnar en ekki sá sem kom (Forseti hringir.) takmörkuninni á.