141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að segja eins og er að það veldur mér bæði vonbrigðum og áhyggjum að sá ágæti og hv. þm. Birgir Ármannsson, sem öllu jöfnu er nú vel lesinn um þau mál sem hann fjallar um í þingsal, er málefnalegur í ræðum sínum og málflutningi að öllu jöfnu, skuli ekki hafa myndað sér skoðun á fjáraukalagafrumvarpinu sem er til umræðu eða því nefndaráliti og breytingartillögum sem færðar voru fram í dag, þrjú nefndarálit flutt fram í dag. Ég verð að skilja orð hv. þingmanns á þann veg að hann geti einfaldlega ekki myndað sér skoðun á þessu máli nema fá þar utanaðkomandi aðstoð. Það veldur mér nú tilteknum vonbrigðum með hv. þm. Birgi Ármannsson að svo sé.

Þetta eru tiltölulega einföld nefndarálit sem hér hafa verið flutt, tiltölulega einfaldar breytingartillögur. Ég reikna með að hv. þingmaður hafi haft góð tök á að kynna sér frumvarpið sjálft, væntanlega breytingartillögurnar og nefndarálitin sem flutt voru í það minnsta af hálfu meiri hlutans sem var lagt hér fram í gær.

Ég get hins vegar ekki heyrt, hvorki á ræðu hans né andsvörum áðan, að hann hafi nokkra skoðun á því eða geri nokkrar athugasemdir sem slíkar við einstakar tillögur, heldur kvarti fyrst og fremst yfir því að geta ekki myndað sér skoðun á því af því hann fær ekki við það utanaðkomandi hjálp. Er það rétt metið og rétt lesið úr orðum hv. þingmanns?