141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Eins og þetta er skilgreint snúa málefni samstarfsnetsins að þessu sinni eða sem sagt um sinn, getum við sagt, fyrst og fremst að málefnum sem tengjast stoðþjónustu og gæðamálum eins og ég fór yfir áðan í andsvari mínu. Þar er til að mynda rætt um innritun, sem hefur vakið furðu mína í rauninni að á Íslandi hefur hún verið sérstök fyrir hvern og einn skóla þegar mun stærri lönd með mun fleiri háskóla geta haft sameiginlega innritun. Þetta er hugsunin fyrst um sinn með samstarfsnetinu. En þetta er þróunarverkefni og hefur alltaf verið ljóst af okkar hálfu að við viljum að það þróist áfram með þátttöku skólanna. Þess vegna er orðalagið í stofnerindi, getum við sagt, þessa samstarfsnets með mögulega sameiningu í huga. En lengra er ekki gengið því að það sem mér finnst mikilvægt er að áður en slíkar ákvarðanir eru teknar þarf að meta hverju þær þjóni og hvort við getum fengið sama ávinning af samstarfi.

Verkefnastjórnin miðast sem sagt við þessi sameiginlegu málefni. Við höfum þekkt dæmi erlendis frá um hreinlega samstæður þar sem saman koma ólíkir háskólar sem starfa undir einni stjórn en hafa eigi að síður talsvert faglegt og fræðilegt sjálfstæði innan síns skóla. Kannski má segja að Háskóli Íslands, eins og hann er byggður upp núna með ólíkum skólum eða sviðum, heilbrigðisvísindasviði, félagsvísindasviði, sé í raun og veru samstæða ólíkra skóla. Það er spurning hvert við leiðum þetta samstarfsnet. En fyrst og fremst er verið að leggja til að það fjalli um þau mál sem snúa að stoðþjónustu, innritun, námsframboðið sé þannig að það sé virkt á milli skólanna, gæðamat og annað slíkt.

Ég tel og raunin er sú, af því að þróunin á háskólastiginu hefur verið mjög hröð á undanförnum áratug, að samræmi hefur ekki verið mikið í þessum málum (Forseti hringir.) sem á þó að vera samræmi á milli. Ef við ætlum að vera þátttakendur í alþjóðlegu (Forseti hringir.) samstarfi þurfa erlendir kollegar okkar að vita að hverju þeir ganga (Forseti hringir.) í íslenskum háskólum.