141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

gengistryggð lán og verðtryggð lán.

[13:39]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefði kannski verið handhægara fyrir hv. þingmann að beina máli sínu til hv. þm. Helga Hjörvars undir liðnum um störf þingsins til dæmis og fá nánari útlistanir á þeim sjónarmiðum sem formaður nefndarinnar er væntanlega að boða að hann hafi í þessum efnum.

Það er öllum ljóst að vandi þeirra sem tóku verðtryggð lán, sérstaklega á árunum rétt fyrir hrunið, er mjög erfið. Það fólk var með mjög há lán þegar verðbólgan fór á fulla ferð. Laun ýmissa lækkuðu, svo maður tali ekki um þá sem misstu vinnuna, og fasteignaverð fór niður. Það hefur orðið misgengi sem við þekkjum áður úr okkar sögu. Ýmislegt hefur verið reynt að gera fyrir þá sem standa verst að vígi og ýmiss konar úrræði hafa verið í boði. Við þekkjum þau, hjá umboðsmanni skuldara og víðar sem og 110%-leiðina, en það hefur ekki verið farið í einhverja almenna niðurfærslu verðtryggðra lána. Um það var til dæmis engin leið að ná samstarfi við banka og lífeyrissjóði, það var reynt á haustmánuðum 2010. En þá var ljóst að ríkið yrði að fara í aðrar aðgerðir og annars konar en hægt var að fá samstöðu um á fjármálamarkaðnum yfir höfuð. Bankar eru líka með umtalsverð verðtryggð án.

Það sem hefur verið gert er að vaxtabætur hafa verið stórauknar og samtals hafa verið greiddir á fimmta tug milljarða í vaxtabætur á árunum 2009 til og með 2012. Upp undir 30% af vaxtakostnaði heimilanna vegna íbúðalánanna hafa verið endurgreidd.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, því sem nú er á borðum þingmanna, eru barnabætur auknar um 2,5 milljarða kr. sem og boðað að áfram verði mjög miklar vaxtabætur greiddar til þeirra sem skuldugastir eru og með þá eftir atvikum lægri tekjur. Þannig er reynt að styðja við þessar fjölskyldur, en það er öllum ljóst að verði niðurstaðan sú sem stefnir í með gjaldeyrislánin er að myndast þarna talsvert misræmi milli þeirra sem tóku verðtryggðu lánin innan lands og hinna sem fá dæmda lækkun höfuðstóls (Forseti hringir.) og jafnvel vaxta líka gegnum dómstólana.

Það er hins vegar hægara sagt en gert að leiðrétta það og ég spyr á móti: Hverjar eru tillögur formanns Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum? Einstöku þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa boðað þar ákveðna hluti (Forseti hringir.) en flokkurinn sjálfur hefur ekki svo ég viti til lagt sín spil á borðið í þeim efnum.