141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Á undanförnum vikum hafa komið fram í fjölmiðlum þungar áhyggjur margra innan kirkjunnar vegna stöðu mála bæði hjá kirkjunni í heild og í söfnuðum landsins. Þingmenn hafa að sjálfsögðu fengið fjölmargar áskoranir og erindi varðandi þessi mál. Vakin hefur verið athygli á því hvernig stjórnvöld hafa gengið fram í skerðingu á sóknargjöldum og öðrum tekjustofnum þjóðkirkjunnar á undanförnum árum og öðrum afleiðingum þeirrar stefnu fyrir starfsemi kirkjunnar og raunar annarra trúfélaga líka, enda er staða þeirra hin sama að þessu leyti.

Öllum er ljóst að við Íslendingar höfum gengið í gegnum erfiðleika á undanförnum árum og ég fullyrði að skilningur á þeirri stöðu hefur verið mjög ríkur af hálfu kirkjunnar. Fullyrða má að kirkjan og söfnuðirnir hafa sýnt langlundargeð og brugðist við síendurteknum skerðingum með aðhaldsaðgerðum. Prestsembættum hefur fækkað, starfsfólki hefur fækkað, dregið hefur úr ýmsu safnaðarstarfi svo sem barna- og æskulýðsstarfi og starfi fyrir aldraða, tónlistarstarfi og fleiru. Viðhald kirkjubygginga hefur víða verið sett í bið og fleira verið gert til að draga úr kostnaði.

En einhvers staðar eru sársaukamörk í þessu sambandi. Ég hef skynjað það nú í haust, sérstaklega eftir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar birtist, þá brast ákveðin stífla í þessu sambandi. Ákall þeirra sem starfa innan kirkjunnar, bæði lærðra og leikra, hefur verið mjög skýrt um að ríkið bæti úr, að á vegum þingsins verði bætt úr og að staðið verði við þá samninga sem í gildi eru milli ríkis og kirkju. Ég ætla að þessu sinni ekki að fjalla nánar um einstakar upphæðir í þessu sambandi, það bíður fjárlagaumræðu sem er skammt undan, en ég vil þó nefna við þetta tækifæri að innheimta sóknargjalda og úthlutun til sókna og trúfélaga er ekki sama eðlis og venjuleg skattheimta á vegum ríkisins eða venjuleg úthlutun fjármuna ríkisins á fjárlögum. Sögulegar rætur þessarar innheimtu og innheimtufyrirkomulags eru af allt öðrum toga og í dag byggja fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju á sérstöku samkomulagi frá 1997 sem byggði á niðurstöðum áralangrar vandaðrar vinnu.

Þær skerðingar sem við höfum séð á undanförnum árum ganga gegn þessu fyrirkomulagi, fyrirkomulagi sem allgott samkomulag hefur verið um um langt skeið. Ef útlit er fyrir að haldið verði áfram á sömu braut má spyrja um framtíð þess samkomulags sem raunar er formlegur samningur.

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu má raunar sjá ákveðnar vangaveltur um þetta þar sem meðal annars er talað um endurskoðun samnings ríkis og kirkju frá 1997 og um breytingu á lögum um stöðu stjórnar og starfshætti kirkjunnar, án frekari skýringa. Það er einmitt á þeim forsendum sem ég vil nálgast umræðuna við hæstv. innanríkisráðherra. Mér finnast þær aðstæður sem uppi eru í þessum málum gefa tilefni til að spyrja ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér þróunina í samskiptum ríkis og kirkju á næstu árum. Það er eðlilegt að hæstv. innanríkisráðherra svari því hvort fyrirhugaðar séu breytingar á lagaumhverfi þjóðkirkjunnar og þá hverjar. Í tengslum við þetta og í framhaldi af ummælum í greinargerð með fjárlagafrumvarpi má líka spyrja hvort fyrirhugaðar séu breytingar á samkomulagi ríkis og kirkju frá 1957 og hvort einhverjar viðræður eigi sér stað um það. Að lokum spyr ég hvort og þá hvernig ráðherra hyggist bregðast við áhyggjum bæði lærðra og leikra af fjárhagsstöðu sókna og afleiðinga hennar fyrir safnaðarstarfið.